Enski boltinn

Pogba segir Mourinho til syndanna: „Lætur leikmönnum líða eins og þeir séu ekki til“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Pogba er hrifnari af þjálfunaraðferðum Ole Gunnars Solskjær en Josés Mourinho.
Paul Pogba er hrifnari af þjálfunaraðferðum Ole Gunnars Solskjær en Josés Mourinho. epa/PETER POWELL

Paul Pogba lætur José Mourinho heyra það í viðtali við Sky Sports og sakar hann um að hunsa leikmenn og láta þeim líða eins og þeir séu ekki til.

Mourinho fékk Pogba til Manchester United fyrir tímabilið 2016-17 og í fyrstu var samband þeirra gott. Fljótlega kastaðist hins vegar í kekki milli þeirra og sambandið var orðið afar slæmt þegar Mourinho var rekinn frá United rétt fyrir jólin 2018.

Pogba segist kunna mun betur við þjálfunaraðferðir eftirmanns Mourinhos, Ole Gunnars Solskjær.

„Ole er öðruvísi. Hann fer ekki gegn leikmönnunum. Þótt hann velji þá ekki í byrjunarliðið ýtir hann þeim ekki til hliðar eins og þeir séu ekki lengur til. Það er munurinn á Mourinho og Ole,“ sagði Pogba við Sky Sports.

„Einu sinni var samband okkar Mourinhos gott eins og allir sáu en næsta dag vissirðu ekki hvað gerðist. Sambandið var skrítið og ég get ekki útskýrt það.“

United vann 1-3 sigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Eftir leikinn gengu skotin milli þeirra Solskjærs og Mourinhos. Pogba segir að Mourinho hafi þar reynt að dreifa athyglinni frá tapi sinna manna.

„Ég veit ekki hvað gerðist en ég er viss um að Mourinho sagði eitthvað sem fengi fólk til að tala. Það er það sem hann gerir,“ sagði Pogba.

„Við náðum í úrslitin sem við vildum og við nutum augnabliksins því við þekkjum Mourinho og hvað honum finnst skemmtilegt. Við þurfum ekki á þessu að halda heldur einbeitum okkur bara að okkur sjálfum. Við unnum, hann tapaði og vildi ekki tala um leikinn heldur um pabba einhvers. Það er það sem hann gerir. Allir þekkja það, þetta var mjög Mourinho-legt.“

United tekur á móti Burnley á sunnudaginn. Í gær tryggðu Pogba og félagar sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar með 2-0 sigri á Granada á Old Trafford. United vann einvígið, 4-0 samanlagt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.