Innlent

Fólk í heimasóttkví fær heimsóknir en ekki frá lögreglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er kominn aftur til starfa eftir smá frí.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er kominn aftur til starfa eftir smá frí. vísir/vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að eftirlit með fólki sem kemur til landsins og fer í heimasóttkví verði aukið með tvennum hætti. Annars vegar skerpt á símtölum til fólks og þeim fjölgað. Hins vegar fær fólk í heimasóttkví heimsókn frá aðilum sem þó er ekki lögregla.

Nýleg reglugerð á landamærum heimilar öllum sem koma til landsins og hafa dvalarstað að fara í fimm daga heimasóttkví í stað þess að fara á sóttvarnahótel. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til aukið eftirlit með heimasóttkví sem nú er að komast mynd á. 

Víðir segir eftirlitið fyrst og fremst leiðbeinandi.

„Það sem við erum að gera núna er að skerpa á þeim símtölum sem fólk fær. Það fá allir núna eitt símtal og við ætlum að fjölga þeim símtölum. Skerpa á að fara yfir gátlistann. Hjálpa fólki að skilja þetta betur,“ segir Víðir og vísar til þess að fólk hafi verið að túlka sóttkví með ólíkum hætti.

„Svo er stefnan að setja í gang heimsóknir sem eru af sama meiði.“

Ræða við öryggisfyrirtæki

Með heimsóknum til fólks eigi að hjálpa því að vanda sig í sóttkví, gera hana markvissari og betri. Auka gæði hennar.

„Við erum fyrst og fremst að horfa á áhættumatið í þessu eftirliti út frá því að reyna að skerpa á leiðbeiningum og hjálpa fólki að skilja betur.“

Tala þurfi við fólk einu sinni, kannski tvisvar eða jafnvel þrisvar og svo mögulega kíkja í heimsókn til að ganga úr skugga um að fólk sinni sóttkví rétt.

„Þetta verður ekki lögreglueftirlit. Ekki lögregla sem fer í heimsóknir eða eitthvað slíkt. Við erum að skoða að gera samninga við aðila, þeir vinna undir faglegri stjórn sóttvarnalæknis. Lögregla fer ekki í þessar heimsóknir.“

Slíkir aðilar gætu verið öryggisfyrirtæki.

„Það er alveg möguleiki. Það hafa tvö öryggisfyrirtæki sett sig í samband við okkur og lýst yfir vilja að koma í samstarf. Við erum í miklu samstarfi við þessi fyrirtæki, til dæmis í sóttvarnahúsunum, úti á Keflavíkurflugvelli, í sýnatökum hérna á höfuðborgarsvæðinu og þau hafa verið góðir samstarsðilar. Það gæti verið mjög hentugt að gera það.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.