Erlent

Svikahrappurinn Bernie Madoff er dáinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Bernie Madoff eftir að hann viðurkenndi brot sín árið 2009.
Bernie Madoff eftir að hann viðurkenndi brot sín árið 2009. AP/David Karp

Hinn víðfrægi svikahrappur Bernie Madoff er dáinn. Hann dó fangelsi í Norður-Karólínu, þar sem hann var að afplána 150 ára fangelsisdóm fyrir umfangsmikil fjársvik.

AP fréttaveitan segir að Madoff, sem var 82 ára gamall, hafa dáið af eðlilegum orsökum. Í fyrra reyndu lögmenn hans að fá hann leystan úr fangelsi á þeim grundvelli að hann væri að glíma við alvarleg veikindi og ætti ekki langt eftir ólífað.

Þeirri beiðni var hafnað.

Stal 7,6  billjónum króna

Madoff var dæmdur í fangelsi fyrir að svíkja um 65 milljarða dala af skjólstæðingum sínum. Það samsvarar rúmlega 7,6 billjónum króna (7.600.000.000.000) miðað við gengið í dag en það gerði hann yfir langt tímabil þar sem hann var ítrekað hylltur sem fjármálasnillingur.

Í fjármálahruninu árið 2008 kom þó í ljós að viðskiptaveldi hans var byggt á sandi og reikningar skjólstæðinga hans, sem höfðu fjárfest hjá honum, tómar. Svik hans knésettu fjölda fólks og heilu góðgerðasamtökin.

Málið reyndist eitt stærsta fjársvikamál sögunnar.

Madoff var svo hataður að hann þurfti að vera í skotheldu vesti í réttarsal.

Fékk hámarksrefsingu

Hann viðurkenndi brot sín svo árið 2009 og var eins og áður segir dæmdur til allt að 150 ára fangelsisvistar, sem var hámarksrefsingin miðað við brot Madoff.

Hann skilur eftir sig eiginkonu en báðir synir hans eru einnig látnir. Annar þeirra dó 48 ára gamall úr krabbameini árið 2014 en hinn framdi sjálfsvíg árið 2010. Hann var 46 ára.

Hér má sjá samantekt á fréttaflutningi CNBC frá 2008 um Madoff.

Hér má sjá sjónvarpsfrétt CBS þegar Madoff var dæmdur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×