Innlent

Ekkert „plan b“ að taka barn í fóstur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Barnaverndarstofa hefur metið Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og baráttukonu fyrir réttindum fólks með fötlun, hæfa til að taka að sér fósturbarn.
Barnaverndarstofa hefur metið Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og baráttukonu fyrir réttindum fólks með fötlun, hæfa til að taka að sér fósturbarn. Oddvar Hjartar

Freyja Haraldsdóttir, baráttukona fyrir réttindum fólks með fötlun og fyrrverandi varaþingmaður, upplifir mikinn létti og gleði yfir því að Barnaverndarstofa hafi metið hana hæfa til að taka að sér fósturbarn – og það eftir sjö ára þrautagöngu í kerfinu.

Hún vonar að sem flestir dragi lærdóm af málinu og átti sig á því að við séum öll hvert öðru háð, ófatlaðir sem og fatlaðir.

Málið á sér heillangan aðdraganda og hófst í júní 2014 þegar Freyja sótti um að fá að sitja námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á að gerast fósturforeldrar. Baráttan var löng og ströng en Freyja þurfti að þræða öll dómstig á Íslandi til að fá að sitja matsnámskeið fyrir verðandi fósturforeldra og á dögunum fékk hún umsögn frá Barnaverndarstofu um að hún sé sannarlega hæf og er hún komin á biðlista.

„Það var ótrúlega ánægjulegt að fá loksins þessa umsögn frá Barnaverndarstofu í kjölfar þess að hafa setið matsnámskeiðið í fyrra. Ég upplifi mikinn létti og ótrúlega mikla gleði, auðvitað!“

Nú tekur við bið, líkt og aðrir sem eru í sömu stöðu hafa fengið að reyna á eigin skinni.

„Ég vona náttúrulega að biðin verði ekki mjög löng en ég er samt bara þolinmóð. Ég held að stærsta skrefið sé komið; að vera komin á lista eins og aðrir sem sækja um að vera fósturforeldrar. Það er mjög góð tilfinning að vera á sama stað og aðrir umsækjendur og það er eitthvað sem ég hef í raun og veru ekki upplifað fyrr en nú.“

Reynslan af því að vera á valdi kerfis muni efla hana sem fósturforeldri

Freyja kveðst hafa verið frekar ung þegar hún áttaði sig á því að hún vildi mjög gjarnan fá að verða foreldri. Fljótlega eftir að hún fékk notendastýrða persónulega aðstoð árið 2007 áttaði hún sig á því að draumurinn um að verða fósturforeldri væri raunhæfur en Freyja nýtur aðstoðar allan sólarhringinn. Freyja segir að hennar reynsla af því að hafa oft upplifað sig á valdi kerfisins muni hjálpa henni í foreldrahlutverkinu því fósturbörn séu líka á valdi kerfis. Þessi reynsla veiti henni betri innsýn og hjálpi til við að taka góðar ákvarðanir.

„Ég hef auðvitað líka menntun og reynslu af því að vinna með börnum en það er ákveðin sannfæring sem hefur keyrt mig áfram í þessari baráttu. Þótt margir haldi að fötlun sé hindrun eða skaðleg fyrir börn þá held ég að því sé einmitt öfugt farið. Ég er sannfærð um að fötlun geti miklu frekar verið tækifæri og verkfæri til að skapa fósturbarni góðar aðstæður.“

Ekkert „plan b“ að taka barn í fóstur

Freyja segir að fyrir sumum sé það ákveðið „plan b“ að taka barn í fóstur en það hafi aldrei átt við í hennar tilfelli. Það hafi alltaf verið hennar fyrsta val að veita barni stuðning sem ekki hafi möguleika á að vera hjá sinni upprunafjölskyldu. „Mig hefur alltaf langað til að verða foreldri með þessum hætti.“

„Það er líka ótrúlega mikilvægt að fólk átti sig á því að þegar tekst á við hlutverkið að verða fósturforeldri þá ertu ekki aðeins að fara inn í líf barnsins heldur líka fjölskyldu þess. Það er reyndar eitthvað sem mér finnst mjög spennandi og eftirsóknarvert. Þótt barn geti ekki alist upp hjá kynforeldrum sínum þá þýðir það ekkert alltaf að það geti ekki átt góð og innihaldsrík samskipti og samband við þá. Mér finnst það ótrúlega mikilvægt og áhugavert verkefni að geta stutt barn í gegnum þetta þótt ég viti alveg að þetta getur orðið flókið.“

Freyja ræddi málið í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 árið 2019, áður en málið fór fyrir Landsrétt. Þar sagði hún meðal annars að fólk gerði sér ekki grein fyrir hvers hún væri megnug.

Fordómarnir og dómharkan eitt það flóknasta við verkefnið

Freyja segist hafa þurft að mæta miklu mótlæti í þessari þrautagöngu; mætt gagnrýni og dómhörku. Eitt það flóknasta við þessa baráttu hafi falist í að takast á við fordómafull viðhorf.

„Og ekki bara hjá Barnaverndarstofu eða í kerfinu heldur í þessum athugasemdakerfum. Ég er þurft að læra, í gegnum þetta ferli, að leyfa þessu ekki að stjórna mínu lífi.“

Hún telur að greina megi rætur fordómanna í garð fólks með fötlunar í ótta.

„Ég held að þessi viðhorf gagnvart fötluðu fólki; að það geti ekki verið foreldrar eða barn væri óöruggt í minni umsjá, endurspegli bæði skilningsleysi á aðstæðum og lífi fatlaðs fólks og líka bara ótta. Við verðum sjálf oft hrædd við að sjá ákveðna þjóðfélagshópa stíga inn í hlutverk þar sem þau hafa áður verið ósýnleg. En auðvitað hafa fatlaðir foreldrar alltaf verið til.“

Freyja segist vita manna best hvað hún sé fær um að gera, hvar hennar styrkleikar liggi og hvað líkami hennar geti gert.

„Ég veit það líka best sjálf með hvaða hætti ég mun takast á við þetta verkefni að verða foreldri, alveg eins og ég hef tekist á við að vera í vinnu eða námi eða að gegna öðrum hlutverkum þannig að ég held að fólk þurfi líka stundum bara að staldra við og stoppa sig af í forræðishyggjunni.“

Freyja hefur líkt og áður segir í þessari grein notendastýrða persónulega aðstoð allan sólarhringinn. Það muni ekki breytast þótt barn komi inn í líf hennar. „Aðstoðarfólkið mitt mun aðstoða mig við allt það líkamlega sem foreldrahlutverkið kallar á alveg eins og aðstoðarfólk aðstoðar mig við allt það líkamlega sem öll önnur hlutverk í mínu lífi kalla á. Það er ekkert nýtt fyrir mér en kannski er það nýtt fyrir samfélaginu. Ég er mjög örugg og bara brött gagnvart því að takast á við þetta hlutverk.“

„Við erum alltaf að þiggja aðstoð“

Freyja bindur vonir við að sem flestir dragi ríkan lærdóm af málinu í heild.

„Og sjái að það sé ekki samasemmerki á milli þess að vera með fötlun og að vera áhorfandi í eigin lífi og ekki þátttakandi. Ég vona mjög innilega að þetta mál minni okkur á að við erum öll hvert öðru háð. Það þurfa allir aðstoð algerlega óháð því hvort þeir eru fatlaðir eða ekki og ófatlaðir foreldrar fá mjög mikla aðstoð líka. Það eru leikskólar, dagforeldrar og frístundarúrræði og barnapössun í IKEA. Við gleymum því kannski stundum en við erum alltaf að þiggja aðstoð.“

„Ég vona að þetta mál minni okkur á að það er ótrúlega frelsandi að viðurkenna að við þurfum öll að hjálpast að og við þurfum öll einhverja aðstoð og þannig verður lífið einfaldara fyrir alla. Ég vona að það séu skilaboðin sem þetta mál kemur áleiðis.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.