Fótbolti

Saltvondur Ronaldo skammaði samherja sína og kýldi í vegg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo hafði allt á hornum sér gegn Genoa.
Cristiano Ronaldo hafði allt á hornum sér gegn Genoa. getty/Marco Canoniero

Þrátt fyrir að 3-1 sigur Juventus á Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni í gær var Cristiano Ronaldo allt annað en ánægður með lífið og reifst og skammaðist við sjálfan sig og aðra.

Ronaldo mistókst að skora í leiknum og skammaði samherja sína, þar á meðal Giorgio Chiellini og Federico Chiesa, fyrir lélega þjónustu.

Þá reifst hann við markvörðinn Wojciech Szczesny fyrir að kasta boltanum út af þegar leikmaður Genoa lá meiddur á vellinum.

Eftir leikinn kastaði Ronaldo treyju sinni á jörðina. Honum var ekki runnin reiðin þegar til búningsherbergja var komið og kýldi í vegg.

„Hann var reiður því honum tókst ekki að skora,“ sagði Andrea Pirlo, knattspyrnustjóri Juventus, um Ronaldo eftir leikinn í gær.

„Það er eðlilegt að leikmaður eins og hann vilji alltaf bæta sig. Ég held að hann verði ekki sektaður, svona lagað getur gerst.“

Ronaldo er markahæstur í ítölsku úrvalsdeildinni með 25 mörk. Juventus er í 3. sæti hennar með 62 stig, tólf stigum á eftir toppliði Inter. Það er því afar fátt sem bendir til þess að Juventus vinni tíunda meistaratitilinn í röð.

Samningur Ronaldos við Juventus rennur út eftir næsta tímabil. Hann kom til liðsins frá Real Madrid 2018.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×