Fótbolti

Héldu hreinu í 57 mínútur með aðeins sjö leikmenn inni á

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö leikmenn Rionegro Aguilas sýndu hetjulega baráttu gegn Boyaca Chico.
Sjö leikmenn Rionegro Aguilas sýndu hetjulega baráttu gegn Boyaca Chico. getty/Gabriel Aponte

Aðeins sjö leikmenn voru í byrjunarliði Rionegro Aguilas gegn Boyaca Chico í kólumbísku úrvalsdeildinni í gær. Á endanum þurfti þó að flauta leikinn af.

Alls voru 22 leikmenn fjarverandi hjá Rionegro Aguilas, þar af sextán vegna kórónuveirunnar. Þrátt fyrir það fékk liðið ekki að fresta leik gegn Boyaca Chico í gær.

Reglur kólumbíska knattspyrnusambandsins kveða á um að lið þurfi að spila þótt aðeins sjö leikmenn séu leikfærir. Annars eigi liði yfir höfði sér háa sekt.

Rionegro Aguilas byrjaði því aðeins með sjö leikmenn inn á gegn fullskipuðu liði Boyaca Chico. Rionegro Aguilas var með einn nýliða í byrjunarliðinu og varamarkvörður liðsins fékk það hlutverk að spila í miðri vörninni.

Þrátt fyrir allt stóðu sjö leikmenn Rionegro Aguilas sig vel og þrátt fyrir að vera fjórum mönnum fleiri tókst Boyaca Chico ekki að skora í fyrri hálfleik.

Stíflan brast loksins á 57. mínútu og Boyaca Chico bætti svo tveimur mörkum við. Þegar ellefu mínútur voru eftir var leikurinn svo flautaður af þegar einn leikmanna Rionegro Aguilas meiddist. Þá voru aðeins sex leikmenn eftir í liði Rionegro Aguilas og leik sjálfhætt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.