Innlent

Opna á hádegi og þangað til verða engir viðbragðsaðilar á staðnum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Engir viðbragðsaðilar verða á svæðinu fram að hádegi.
Engir viðbragðsaðilar verða á svæðinu fram að hádegi. Vísir/Vilhelm

Gosstöðvarnar á Reykjanesskaga verða opnaðar almenningi á hádegi í dag og fram að þeim tíma verða engir viðbragðsaðilar á gosstöðvunum sjálfum. 

Einhverjir eru þó þegar komnir  á staðinn að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum en þeir sem vilja leggja þegar af stað þurfa að gera sér grein fyrir því að viðbragðsaðilar verða ekki á svæðinu fyrr en í hádeginu.

Síðustu viðbragðsaðilar fóru af svæðinu klukkan eitt í nótt og var ákveðið að hefja störf að nýju í hádeginu.

Sigurður Bergmann lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir þetta hafa verið ákveðið til að hvíla mannskapinn. Hann segir núverandi fyrirkomulag ekki ganga til lengdar, ekki sé hægt að manna viðbragð á gosstöðvunum með sjálfboðaliðum úr röðum björgunarsveitanna vikum saman.  

Hann segir veður gott á svæðinu, rjómablíða eins og best verði á kosið.  

Í dag berst gasmengun frá gosstöðvuðnu í Geldingadölum líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga, það er að segja yfir svæðið frá Vogum og vestur að Höfnum. Á þessu svæði eru líkur á að loftgæði verði óholl fyrir viðkvæma. 

Á svæðinu er spáð austan- og suðaustan átt, átta til þrettán metrum á sekúndu en síðan snýst í suðaustan fimm til tíu seint í kvöld. Lítilsháttar rigning eða slydda öðru hvoru og hiti núll til fimm stig. 

Á gosstöðvunum sjálfum getur gasmengunin alltaf farið yfir hættumörk. Mökkurinn leggst undan vindi og því er ávallt öruggast að horfa á gosið með vindinn í bakið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×