Enski boltinn

Mourinho: Ég skil ekkert sem tengist VAR

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Báðir stjórar voru ósáttir við störf dómaranna í dag.
Báðir stjórar voru ósáttir við störf dómaranna í dag. vísir/Getty

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, telur sitt lið hafa verið óheppið með myndbandadómgæsluna í tapinu gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Raunar voru gestirnir úr Manchester einnig afar ósáttir með störf dómaranna í leiknum og þótti illa að sér vegið í fyrri hálfleiknum þar sem meðal annars var dæmt mark af Edinson Cavani fyrir litlar sakir í aðdraganda marksins.

Mourinho talaði hins vegar um það eftir leik að hans lið hefði verið hlunnfarið af dómaranum, eða VAR myndbandadómgæslunni.

„Við mættum góðu liði sem hefur marga sterka leikmenn á miðjunni. Við fengum frábær tækifæri til að skora annað mark. Við áttum tilraun í stöngina og vorum betri á þeim kafla,“ sagði Mourinho og hélt áfram.

„Mér fannst þetta góður leikur og mér fannst við ekki verðskulda þessi úrslit. Við vorum líka óheppnir því kannski átti Pogba að fá rautt spjald fyrir olnbogaskot á Serge Aurier.“

„Ég veit ekkert um VAR. Ég horfi á Fulham á móti Wolves og ég skil ekkert í neinu af þessu lengur. Stundum færðu eitthvað og stundum ekki. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég er hættur að fagna mörkum því maður er alltaf smeykur við VAR,“ segir Mourinho.

Mourinho var einnig hundóánægður með ummæli kollega síns, Ole Gunnar Solskjær, um Son Heung Min í leikslok eins og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Ole Gunnar fordæmdi Son fyrir viðbrögð sín þegar fyrsta mark Man Utd var dæmt af og sagðist ekki myndu gefa syni sínum að borða ef hann myndi haga sér með sama hætti og Son.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.