Erlent

Drottningarmaður í tæp sjötíu ár

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Filippus og Elísabet á demantsbrúðkaupsafmæli sínu árið 2007.
Filippus og Elísabet á demantsbrúðkaupsafmæli sínu árið 2007. Getty/Tim Graham

Filippus Bretaprins lést í morgun, 99 ára að aldri. Margir syrgja prinsinn, sem var giftur Elísabetu drottningu í 73 ár.

Filippus hefði orðið hundrað ára í júní en hann lætur eftir sig fjögur börn, átta barnabörn og tíu barnabarnabörn. Enginn hefur lengur gegnt hlutverki maka konungs eða drottningar í sögu Bretlands.

Prinsinn þjónaði í sjóhernum í seinni heimsstyrjöld og beitti sér síðustu áratugi í þágu íþrótta, hreyfingar barna og vísinda svo fátt eitt sé nefnt.

Flaggað var í hálfa stöng víðs vegar innan sem utan Bretlands í dag vegna andláts Filippusar og fjöldi lagði leið sína að Windsor-kastala, þar sem hann lést, og skildi eftir blómvendi.

„Hann var augljóslega þjóðargersemi, maðurinn. Filippus fékk okkur til að hlæja, hann var bráðgáfaður og stórmenni. Það var fallegt að fylgjast með sambandi hans við drottninguna og hann skipti þjóðina miklu máli,“ sagði Lundúnabúinn Alice Tharme við AP-fréttaveituna.

Breskir ráðamenn sem og aðrir minntust prinsins í ræðum og tilkynningum í dag. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði Filippusar verða minnst fyrir stuðning við drottninguna og þjónustu við þjóðina.

„Hann hjálpaði til við að stýra konungsfjölskyldunni og krúnunni og kom að því að gera stofnunina bráðnauðsynlega fyrir bresku þjóðina,“ sagði Johnson.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.