Innlent

Birta hverja krónu sem bændur fá í styrk

Atli Ísleifsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson, ráðherra landbúnaðarmála, við opnun Mælaborðs landbúnaðarins í gær.
Kristján Þór Júlíusson, ráðherra landbúnaðarmála, við opnun Mælaborðs landbúnaðarins í gær. Stjórnarráðið

Stuðningsgreiðslur hins opinbera til bænda, tölur um framleiðslu og innflutning búvara og tölfræðilegar upplýsingar um fjölda bænda og búfénaðar eru meðal þeirra upplýsinga sem verða aðgengilegar á nýju Mælaborði landbúnaðarins.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnaði Mælaborð landbúnaðarins á opnum streymisfundi í gær, en í tilkynningu á vef ráðuneytisins er Mælaborðið sagt hafa mikið upplýsingagildi fyrir neytendur, bændur, stjórnvöld og aðra sem vilja nálgast upplýsingar um stöðu og þróun helstu upplýsinga og hagtalna í íslenskum landbúnaði.

Aukið gagnsæi

Haft er eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að Mælaborðið sé nauðsynlegt verkfæri til að tryggja yfirsýn við framkvæmd landbúnaðarstefnunnar á hverjum tíma.

„Opnun mælaborðsins [í gær] markar því tímamót því með því eru stjórnvöld að eiga frumkvæði að því að birta opinberlega þessar mikilvægu upplýsingar þannig að þær séu aðgengilegar öllum. Auka þannig gangsæi en um leið yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu til hagsbóta fyrir alla þá sem koma að íslenskum landbúnaði. Um leið stuðla að því að umræða um landbúnað byggi á rauntölum. Næsta skref verður að þróa og styrkja mælaborðið enn frekar,” er haft eftir ráðherranum.

Einnig segir að stofnun Mælaborðsins sé hluti af samkomulagi ríkis og bænda við endurskoðun rammasamnings búvörusamninga en þar komi fram að nauðsynlegt þyki að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu meðal annars vegna fæðuöryggis og slíkur gagnagrunnur eykur gagnsæi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×