Man United í góðum málum eftir 2-0 sigur á Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcus Rashford og Bruno Fernandes skoruðu mörk Manchester United í kvöld.
Marcus Rashford og Bruno Fernandes skoruðu mörk Manchester United í kvöld. EPA-EFE/MIGUEL ANGEL MOLINA

Manchester United vann 2-0 sigur á Granada í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Man Utd þar með í frábærum málum fyrir síðari leik liðanna eftir viku. Það voru þó ekki mörkin né úrslit leiksins sem vöktu hvað mesta athygli.

Fyrri hálfleikur fer ekki í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi en hann var samt sem áður áhugaverður svo ekki verði meira sagt. Áhorfendabann er á Spáni en það var þó um tíma einn áhorfandi á leik kvöldsins. Sá gerði sér lítið fyrir hljóp nakinn inn á völlinn á áttundu mínútu leiksins og lagðist í grasið.

Hvernig hann komst inn á völlinn, hvar skyldi hann fötin sín eftir og hver var tilgangurinn eru allt spurningar sem er ósvarað sem stendur. Var þetta það eina markverða sem gerðist þangað til hálftími var liðinn af leiknum.

David De Gea tók þá markspyrnu stutt á Harry Maguire sem gaf á Victor Lindelöf. Sænski miðvörðurinn skokkaði upp völlinn áður en hann gaf þessa líka fínu sendingu yfir vörn heimamanna á Marcus Rashford sem tók við boltanum og kom Manchester United 1-0 yfir í kjölfarið.

Var enski framherjinn að skora sitt 20. mark á tímabilinu. Ekki slæmt fyrir mann sem spilar aðallega á vinstri vængnum og hefur verið að spila meiddur nær allt tímabilið.

Áður en fyrri hálfleik lauk nældu Luke Shaw og Scott McTomiany sér í gul spjöld sem þýðir að þeir verða í leikbanni í síðari leik liðanna sem fram fer á Old Trafford eftir viku. 

Ef fyrri hálfleikur var tíðindalítill þá var sá síðari enn slakari. Heimamenn keyrðu pressuna upp síðustu mínútur leiksins en allt kom fyrir ekki. Það var svo eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar United fékk dæmda vítaspyrnu skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma.

Bruno Fernandes féll í teignum og vítaspyrna dæmd. Fernandes fór sjálfur á punktinn og kom Manchester United 2-0 yfir. Reyndust það lokatölur og lærisveinar Ole Gunnar Solskjær í góðum málum fyrir síðari leik liðanna sem fram fer eftir viku.

Þar verður Man United án Shaw, McTominay og Harry Maguire sem fetaði í fótspor þeirra fyrrnefndu og nældi sér í gult spjald í síðari hálfleik. Alls fengu gestirnir fimm gul spjöld en bæði Paul Pogba og Nemanja Matic fóru einnig í svörtu bókina.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira