Erlent

Tyrkir neita því að þeir hafi snuprað von der Leyen

Kjartan Kjartansson skrifar
Aðeins voru tveir stólar fyrir leiðtogana þegar Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, (t.v.) og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, (t.h.) funduðu með Recep Erdogan Tyrklandsforseta (f.m.) á þriðjudag.
Aðeins voru tveir stólar fyrir leiðtogana þegar Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, (t.v.) og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, (t.h.) funduðu með Recep Erdogan Tyrklandsforseta (f.m.) á þriðjudag. Vísir/EPA

Utanríkisráðherra Tyrklands segir fráleitt að Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafi verið sýnd óvirðing vegna kynferðis hennar á fundi með Recep Erdogan forseta á þriðjudag. Von der Leyen var látin sitja á sófa til hliðar við Erdogan og Charles Michel, forseta leiðtogaráðs ESB.

Uppákoman á fundi leiðtoga Evrópusambandsins með Erdogan í forsetahöllinni í Ankara vakti furðu og gagnrýni. Þau von der Leyen og Michel voru leidd inn í sal til viðræðna við Erdogan en tyrknesku gestgjafarnir höfðu aðeins komið fyrir tveimur stólum.

Von der Leyen stóð því álengdar á meðan Erdogan og Michel tóku sæti sín. Síðar sást hún sitja á stórum sófa á meðan karlmennirnir tveir ræddu málin. AP-fréttastofan segir að forseti framkvæmdastjórnarinnar hafi látið vonbrigði sín í ljós.

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, hafnar því að von der Leyen hafi verið mismunað vegna þess að hún er kona. Hann fullyrðir að farið hafi verið eftir óskum Evrópusambandsins um siðareglur fyrir fundinn.

„Með öðrum orðum var sætatilhögunin í samræmi við tillögur fulltrúar Evrópusambandsins. Punktur,“ sagði utanríkisráðherrann.

Michel sagði í gær að Tyrkir hefðu túlkað siðareglur fyrir fundinn „bókstaflega“. Hann harmaði meðferðina á forseta framkvæmdastjórnarinnar sem hefði jafnvel verið óvirðing sýnd. Michel hefur sjálfur verið gagnrýndur fyrir að standa ekki með von der Leyen.

Talsmaður von der Leyen sjálfrar sagði að fyrirkomulagið hefði komið henni á óvart og að hún hefði átt að sitja með þeim Michel og Erdogan. Hún hafi aftur á móti kosið að einblína á efni fundarins frekar en að festa sig í siðareglur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.