Fótbolti

Hjartnæm ástæða en dómaranum gæti verið refsað

Sindri Sverrisson skrifar
Octavian Sovre náði að fá eiginhandaráritun frá Erling Braut Haaland í fyrrakvöld, á gult og rautt spjald sem hann var með í brjóstvasanum.
Octavian Sovre náði að fá eiginhandaráritun frá Erling Braut Haaland í fyrrakvöld, á gult og rautt spjald sem hann var með í brjóstvasanum. Getty/Alex Nicodim og Clive Brunskill

Það vakti mikla athygli í vikunni þegar það sást til rúmenska dómarans Octavian Sovre fá eiginhandaráritun hjá norsku fótboltastjörnunni Erling Braut Haaland. Sovre gerði þetta í þágu góðs málefnis en athæfið gæti dregið dilk á eftir sér.

Sovre var annar aðstoðardómaranna í 2-1 sigri Manchester City og Dortmund. Haaland, sem lagði upp mark Dortmund, tók vel í beiðni Sovres eftir leik og gaf eiginhandaráritun á gult og rautt spjald. Þetta gerði hann í leikmannagöngunum á Etihad-leikvanginum og náðust af því sjónvarpsmyndir.

Rúmenski miðillinn Gazeta Sporturilor greinir frá því að Sovre hafi fengið eiginhandaráritanirnar til að hjálpa einhverfu fólki, börnum og fullorðnum, í Bihor-héraðinu. Verða þær boðnar upp á árlegu uppboði samtaka sem Sovre hefur stutt við undanfarin fimm ár með gjöfum úr sínu starfi í alþjóðafótboltanum.

Get ekki lýst því hve mikið hann hefur hjálpað okkur

„Ég get ekki lýst því hve mikið Octavian hefur hjálpað okkur í mörg ár,“ segir Simona Zlibut, forstöðukona samtakanna. Gjafirnar frá Sovre hafa ýmist verið treyjur, myndir eða eiginhandaráritanir.

Zlibut segir að hún og Sovre hafi raunar þekkst síðan þau voru í leikskóla. Foreldrar þeirra beggja séu frá bænum Sanmartin.

„Við vitum að við getum ekki fjármagnað starfsemi okkar með öðrum hætti. Ef að ég myndi hringja og biðja um peninga myndi næstum því enginn styrkja okkur en þegar kemur að því að kaupa hluti, treyjur, málverk, eiginhandaráritanir eða myndir á uppboði, þá er fólk til í að borga,“ sagði Zlibut.

Breska blaðið The Times segir að líklegt sé að það muni bitna á Sovre að hafa beðið Haaland um eiginhandaráritun, hvað framtíðarverkefni hans hjá UEFA snerti. Dómarar mega þiggja hóflegar gjafir, svo sem treyjur eða flögg, frá knattspyrnufélögum en aldrei biðja um þær. UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, heldur utan um Evrópukeppnir félagsliða og landsliða.

Dortmund og City mætast að nýju í Þýskalandi á miðvikudaginn í næstu viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.