
„Við bættum við endann á gönguleiðinni. Núna liggur hún frá sama upphafsstað og alveg að nýjustu gosstöðunum,“ sagði Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður frá Þorbirni í Grindavík, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
-En þið sneiðið framhjá kaðlinum?
„Já, við náum að sneiða framhjá kaðlinum. Við breyttum henni örlítið þannig að núna liggur hún svona 50 til 70 metra til austurs. Þannig að núna fer hún svona sneiðing upp hlíðina en fer ekki í kaðalinn sjálfan.“

-Er þetta þá auðveldari leið en kaðalleiðin?
„Já, miklu auðveldari. Nú er allavega hægt að labba alla leið frá upphafi gönguleiðar og alveg upp að gosstöð án þess að þurfa að grípa í kaðal. Vissulega er verið að fara upp á fjall en það er miklu einfaldara,“ sagði Otti.

Meðal björgunarsveitarmanna í vörslu á upphafsstað gönguleiðarinnar við Suðurstrandarveg í dag var Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna.
„Við erum að vakta hérna svæðið. Ég er fyrir Hjálparsveit skáta í Hveragerði. Við erum bara að taka þátt í þessu verkefni. Þetta gefur okkur smápeninga í fjáröflun fyrir félagið. Og félagar okkar í sveitinni fá líka hluta af þessum tekjum í búnaðarkaup. Þannig að ég er bara í því að styrkja sveitina fyrir mig og mína félaga.“
Gísli Páll sagði langflesta ferðamenn vel búna. Þeir höfðu þó afskipti af tveimur í morgun sem voru illa búnir en fóru samt. Þeir skiluðu sér þó heilir á húfi til baka.

Framan af degi fóru fáir að gosstöðvunum. Þeim fjölgaði hins vegar eftir því sem leið á daginn og síðdegis máttu sjá um eitthundrað bíla á stæðum við Suðurstrandarveg.
Meðal þeirra sem gengu að gosstöðvunum í dag voru þau Stefanía Ósk Ágústsdóttir og Pálmar Helgi Tómasson flugmaður.

„Þetta var bara geggjað. Þetta var ógeðslega flott. Tókum með okkur smábita heim, hraunbita,“ sagði Stefanía.
„Þetta var styttra en ég bjóst við, miðað við það sem ég hafði ímyndað mér,“ sagði Pálmar en þau sögðust hafa verið rúma þrjá tíma á göngunni, fram og til baka.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: