Fótbolti

FIFA setur tvö knattspyrnusambönd í bann

Sindri Sverrisson skrifar
Aðildarsambönd FIFA eru 211 talsins.
Aðildarsambönd FIFA eru 211 talsins. Getty/David Ramos

FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, hefur sett knattspyrnusambönd Pakistans og Tjads í bann vegna afskipta annarra af samböndunum.

Knattspyrnusamböndin tvö munu ekki fá styrki frá FIFA á meðan á banninu stendur, hlé verður á þróunarverkefnum á vegum FIFA í löndunum, og lið frá löndunum geta ekki tekið þátt í keppnum á vegum FIFA.

FIFA segir að ákvörðunin vegna knattspyrnusambands Pakistans sé tekin vegna afskipta „þriðja aðila“. Hópur undir forystu Ashfaq Hussain, sem var valinn af hæstarétti til að leiða pakistanska sambandið árið 2018, tók fyrir skömmu yfir starfsemi sambandsins. FIFA viðurkenndi ekki valið á hópnum árið 2018 en skipaði nefnd undir forystu Haroon Malik sem stýrt hefur sambandinu.

FIFA segir í tilkynningu að send hafi verið út viðvörun vegna þess sem FIFA telur ólögmæta innrás í höfuðstöðvar pakistanska sambandsins. Ekki hafi verið brugðist við þeirri viðvörun.

Pakistanska sambandið var áður sett í bann vegna afskipta þriðja aðila árið 2017.

Knattspyrnusamband Tjad er einnig komið í bann en það er vegna afskipta stjórnvalda í miðafríkuríkinu. Stjórnvöld ákváðu að taka yfir starfsemi sambandsins og söðla undir sig eignir þess. Bannið gildir þar til að þessar ákvarðanir verða dregnar til baka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.