Fótbolti

Klopp kvartar yfir vellinum í Madríd: „Anfield er allavega alvöru leikvangur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp var ekki skemmt eftir tapið fyrir Real Madrid.
Jürgen Klopp var ekki skemmt eftir tapið fyrir Real Madrid. getty/Isabel Infantes

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kvartaði yfir vellinum sem leikurinn gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær fór fram á. Madrídingar unnu leikinn, 3-1, og eru í góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fer fram á Anfield eftir viku.

Framkvæmdir standa yfir á Santiago Bernabéu, heimavöll Real Madrid, og því hafa Spánarmeistararnir leikið heimaleiki sína á æfingavellinum, Estadio Alfredo Di Stefano. Hann tekur aðeins sex þúsund manns í sæti en Santiago Bernabéu 81 þúsund manns.

Klopp sagði að það hefði verið skrítið að spila á Estadio Alfredo Di Stefano og segir að Anfield muni skipta sköpum í seinni leiknum.

„Þetta hlýtur að verða erfitt fyrir Real Madrid á Anfield. Þetta var skrítið í kvöld með völlinn en Anfield er allavega alvöru leikvangur og það verður gott fyrir okkur,“ sagði Klopp.

Liverpool átti eftirminnilega endurkomu gegn Barcelona á Anfield í undanúrslitum Meistaradeildarinnar 2019. Gegn Real Madrid á miðvikudaginn verða hins vegar engir áhorfendur á Anfield, öfugt við leikinn fyrir tveimur árum.

„Ef þú vilt endurupplifa tilfinningaríkar minningar horfðu þá aftur á Barcelona leikinn og áttatíu prósent af því var stemmningin á vellinum. Það er ekki eins og ég sitji hér og segi að við komum alltaf til baka. Við vorum með stuðningsmenn þá og ég veit ekki hvort við getum gert þetta,“ sagði Klopp.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

„Lét eins og að Mané stundaði dýfingar“

Jürgen Klopp sagði Liverpool-menn ekki hafa átt meira skilið en 3-1 tap gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Hann furðaði sig þó á störfum dómarans Felix Brych og sagði hann hljóta að hafa eitthvað perónulegt á móti Sadio Mané.

Real í góðum málum eftir öruggan sigur á Liver­pool

Real Madrid vann 3-1 sigur á Liverpool í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld og er því í góðum málum fyrir síðari leik einvígisins sem fram fer á Anfield eftir viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.