Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, sem Vísir hefur gert ítarleg skil, að sóttvarnalæknir hafi gengið lengra en lög heimiluðu með því að skikka fólk sem sannarlega hafði í hús að vernda hér á landi til að sæta fimm daga sóttkví í til þess gerðu sóttvarnahúsi. Til þess skorti reglugerð heilbrigðisráðuneytisins lagastoð.
Þrátt fyrir niðurstöðuna hvetja stjórnvöld gesti í sóttvarnahúsi til að ljúka dvöl sinni þar. Þeir sem hafi viðunandi aðstöðu til að ljúka sóttkví annars staðar megi þó hverfa þangað.

Fundurinn í velferðarnefnd er fjarfundur og hefst eins og áður segir klukkan tíu. Auk Svandísar og Þórólfs verða þar hinir ýmsu lögspekingar, að sögn Helgu Völu Helgadóttir, formanns velferðarnefndar. Hún gerir ráð fyrir að fundurinn standi fram yfir hádegi.
Staðan á öðrum fundahöldum
Enginn ríkisstjórnarfundur verður haldinn í dag eins og venjan er á þriðjudögum. Ákveðið var fyrir nokkru síðan að fresta fundinum, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Ekki er ráðgert annað en að næsti ríkisstjórnarfundur verði haldinn á föstudag.
Þá verður hefðbundinn upplýsingafundur um stöðu kórónuveirufaraldursins haldinn í dag. Fundur viðbragðsaðila um ástandið á gosstöðvunum er hins vegar staðfestur nú klukkan níu en þangað til, hið minnsta, verður svæðið áfram lokað almenningi.
Fréttin hefur verið uppfærð.