Erlent

Segja bresku lyfjastofnunina vera að íhuga að endurskoða notkun bóluefnisins frá AstraZeneca

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lyfjastofnun Evrópu mun ákveða á morgun hvort hún mælir áfram með notkun bóluefnisins frá AstraZeneca.
Lyfjastofnun Evrópu mun ákveða á morgun hvort hún mælir áfram með notkun bóluefnisins frá AstraZeneca. epa

Breska lyfjastofnunin (MHRA) segir enga ákvörðun hafa verið tekna varðandi breytingar á notkun Covid-19 bóluefnisins frá AztraZeneca en Channel 4 News greindi frá því í gær að verið væri að skoða að hætta notkun bóluefnisins í yngri aldurshópum.

Ástæðan eru tilvik blóðtappamyndunar, sem hafa verið tengd bólusetningu.

Fréttastofan hafði eftir tveimur heimildarmönnum að ábendingar væru uppi sem réttlættu að bjóða ungum einstaklingum, að minnsta kosti 30 ára og yngri, annað bóluefni.

Báðir heimildarmenn ítrekuðu hins vegar stuðning sinn við bóluefnið frá AstraZeneca og sögðust uggandi yfir því að mögulegar takmarkanir á notkun þess myndu grafa undan trausti almennings til bóluefnisins.

June Raine, forstjóri MHRA, sagði í gærkvöldi að engin ákvörðun hefði verið tekin í þessum efnum og hvatti fólk til að þiggja bólusetningu. 

Neil Ferguson, prófessor við Imperial College London, sagði í samtali við BBC Radio 4 að umrædd tilvik blóðtappa vektu spurningar um það hvort bólusetja ætti ungt fólk með bóluefninu frá AstraZeneca.

Hann sagði mögulegt að áhættan væri aldurstengd og þá væru uppi spurningar um hvort hún væri einnig mismikil hjá konum og körlum.

Þegar vega ætti ávinninginn og áhættuna af bólusetningu með bóluefninu frá AstraZeneca benti niðurstaðan til þess að elda fólk ætti að láta bólusetja sig en jafnan væri flóknari þegar kæmi að yngra fólki.

Breska lyfjastofnunin hefur skráð 30 tilvik blóðtappa, þar af sjö dauðsföll, en 18,1 milljón skammtar af bóluefninu höfðu verið gefnir 24. mars.

Frétt Guardian um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×