Fótbolti

Ís­lendinga­liðum spáð efstu þremur sætunum sem og þremur neðstu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir leikur með Rosengård. Liðinu er spáð 2. sæti í ár.
Glódís Perla Viggósdóttir leikur með Rosengård. Liðinu er spáð 2. sæti í ár. VÍSIR/VILHELM

Sænska úrvalsdeildin í knattspyrnu hefst eftir tvær vikur og hefur Twitter-reikningurinn Damallsvenskan Nyheter birt spá sína fyrir komandi tímabil. Þrjú efstu liðin eiga það sameiginlegt að vera með Íslending innanborðs.

Häcken er spáð titlinum annað árið í röð. Liðið hét Kopparbergs/Göteborg á síðustu leiktíð en vegna fjárhagsvandræða var liðið felld inn í starf Häcken. Hin 19 ára gamla Diljá Ýr Zomers er í leikmannahópi liðsins.

Glódís Perla Víggósdóttir og stöllum hennar í Rosengård er spáð öðru sætinu. Glódís Perla verður á sínum stað í hjarta varnarinnar nema eitthvað óvænt komi upp á. 

Í þriðja sæti er svo Íslendingalið Kristianstad. Sif Atladóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru meðal leikmanna liðsins, Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari og Björn Sigurbjörnsson aðstoðarþjálfari.

Liðið endaði í þriðja sæti á síðustu leiktíð og er spáð sama sæti í ár.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir gengu í raðir Örebro fyrir tímabilið og er spáð 7. sæti. Piteå, lið Hlínar Eiríksdóttur, er spáð 10. sætinu eftir harða fallbaráttubaráttu við Djurgården og AIK.

Guðrún Arnardóttir leikur með Djurgården og Hallbera Guðný Gísladóttir með AIK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×