Innlent

Brjóta páskaeggin svo flestir skjólstæðingar fái mola

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Rósý Sigþórsdóttir verkefnastýra kaffistofu Samhjálpar býst við allt að 200 manns í mat á páskadag. Því miður sé ekki til nóg af páskaeggjum.
Rósý Sigþórsdóttir verkefnastýra kaffistofu Samhjálpar býst við allt að 200 manns í mat á páskadag. Því miður sé ekki til nóg af páskaeggjum. Vísir

Búist er við fjölmenni í mat hjá Samhjálp á páskadag en daglega koma hundrað og fimmtíu til tvöhundruð manns í hádegismat að sögn verkefnastýru kaffistofunnar. Fjölgað hafi í hóp þeirra sem þurfi á aðstoð að halda. Ekki er til nóg af páskaeggjum fyrir alla á páskadag.

Samhjálp félagasamtök hafa starfað að góðgerðarmálum og hjálparstarfi í 47 ár og reka fjölmörg úrræði þar á meðal kaffistofuna í Borgartúni 1.  Þar er boðið upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu, alla daga ársins fyrir utangarðsfólk og aðra þá sem um sárt eiga að binda. 

Rósý Sigþórsdóttir er verkefnastýra þar.

„Við erum að fá 150 til 200 manns á hverjum degi og það hefur verið að aukast. Atvinnulausir eru meira að koma og svo virðist fátækt vera að aukast. Það er líka meiri þungi yfir fólki sem kemur í fyrsta sinn, mörgum reynast fyrstu skrefin að því að þiggja hjálp erfið,“ segir Rósý.

Hún segir að boðið verði uppá máltíðir um páskanna og á páskadag verði lambaveisla sem góðir bakhjarlar Samhjálpar bjóði uppá.

Við erum með opin núna um páskanna frá 11 til 13 og morgun laugardag frá 11 til 14. Þá verður veisla hjá okkur á páskadag en því miður eigum við ekki nóg af páskaeggjum fyrir alla. Við höfum tekið það ráð þegar við höfum fengið egg að brjóta það svo sem flestir fái smá mola,“ segir Rósý. 

Aðspurð um hvor fólk geti komið með páskaegg handa skjólstæðingum Samhjálpar segir Rósý.

„Já að sjálfsögðu við erum með opið í Borgartúni eitt í kringum hátíðina nú um páskanna.“ 

Hún segir að hertar samkomutakmarkanir valdi því að fólk sé hleypt inn í hollum og geti ekki verið eins lengi að snæðingi og áður en en allir sýni því skilning.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×