Erlent

Tugir látnir og um tvö hundruð sitja föst eftir lestar­slys

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Björgunarfólk að stöfum við að koma fólki út úr lestinni. Fyrir ofan lestina má sjá gula vinnuvél sem sögð er hafa runnið út á lestarteinana, með þeim afleiðingum að lestin fór af sporinu.
Björgunarfólk að stöfum við að koma fólki út úr lestinni. Fyrir ofan lestina má sjá gula vinnuvél sem sögð er hafa runnið út á lestarteinana, með þeim afleiðingum að lestin fór af sporinu. NFA/AP

Minnst 41 hefur látist og hátt í tvö hundruð eru föst í lestargöngum í Taívan eftir að hraðlest fór út af sporinu þar í gær. Tugir eru slasaðir og björgunarfólk reynir hvað það getur að komast að fólkinu.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu lenti lestin á vinnuvél sem hafði runnið út á lestarteinana við munna gangnanna. Ekki liggur fyrir hvernig það atvikaðist að vélin rann út á teinana.

Lestin var á leið frá Taipei, höfuðborg Taívans, til Taitung. Margt fólk var í lestinni þar sem fólk í landinu ferðast nú milli landshluta vegna árlegs vikufrís sem stendur þar yfir.

Talið er að hátt í fimm hundruð manns hafi verið um borð í lestinni og að einhverjir hafi staðið sökum fjölda um borð.

Farþegar öftustu vagnanna komu best undan slysinu og gátu sumir þeirra komist sjálfir út úr lestinni. Um hundrað manns hefur þegar verið bjargað út úr göngunum, en um tvö hundruð eru enn föst þar. Slysið átti sér stað klukkan níu að morgni að staðartíma, eða klukkan eitt í nótt á íslenskum tíma.

Tsai Ing-wen, forseti Taívans, sagði í yfirlýsingu að það væri hið mesta forgangsmál að ná fólki út úr göngunum sem fyrst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×