Fótbolti

Tapið gegn Norður-Makedóníu það versta í sögu Þýska­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Goran Pandev skoraði fyrra mark Norður-Makedóníu gegn Þýskalandi.
Goran Pandev skoraði fyrra mark Norður-Makedóníu gegn Þýskalandi. EPA-EFE/THILO SCHMUELGEN

Tölfræðisíðan Gracenote hefur tekið saman það helsta sem gerðist í fyrstu þremur umferðum undankeppni HM 2022 í knattspyrnu. Sigur Norður-Makedóníu á Þýskalandi ber þar af en um er að ræða versta tap í sögu Þýskalands.

Fyrir leik liðanna var talið nær ómögulegt að Norður-Makedónía myndi fá eitthvað úr leiknum í Þýskalandi. Það fór hins vegar svo að gestirnir unnu óvæntan 2-1 sigur þökk sé mörkum Goran Pandev og Eljif Elmas.

Ekki nóg með að tap Þýskalands sé það versta af þeim 75 landsleikjum sem fram fóru í undankeppni HM nýverið heldur er um að ræða versta tap í sögu þýska landsliðsins. Toppar það 1-0 tapið gegn Norður-Írlandi á heimavelli í undankeppninni EM árið 1984.

Joachim Löw hefur nú stýrt þýska landsliðinu í þremur af fimm verstu töpum þess. Ásamt tapinu gegn Norður-Makedóníu þá tapaði Þýskaland 2-0 gegn Suður-Kóreu á HM í Rússlandi 2018 og gegn Póllandi í undankeppni EM 2016.

Gracenote telur enn 64 prósent líkur á að Þýskaland vinni riðilinn og 71 prósent líkur á að liðið komist á HM í Katar. Íslenska landsliðið er ekki í alveg jafn góðum málum, það eru tvö prósent líkur á að liðið vinni riðilinn og aðeins fjögur prósent líkur að liðið komist á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×