Innlent

Fyrstu gestirnir mættir á sóttkvíarhótelið við Þórunnartún

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sóttkvíarhótelið við Þórunnartún var opnað í morgun.
Sóttkvíarhótelið við Þórunnartún var opnað í morgun. Rauði krossinn

Fyrsta sóttkvíarhótelið var opnað í morgun í tengslum við hertar sóttvarnarráðstafanir á landamærum. Sóttkvíarhótelið við Þórunnartún hefur nú verið opnað en hertar reglur tóku gildi á miðnætti.

Samkvæmt nýjum reglum um skimanir og sóttkví skulu allir sem koma til landsins frá dökkrauðum eða gráuum ríkjum, sem svo eru skilgreind samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu, sæta sóttkví á sóttkvíarhóteli milli skimana, að þeim undanskyldum sem framvísa gildu vottorði um fyrri sýkingu eða bólsetningu. Sóttvarnalæknir mun jafnframt reglulega birta lista yfir þau svæði sem falla undir ákvæðið.

Rauði krossinn hefur umsjón með sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún.Rauði krossinn

Samkvæmt tilkynningu frá Rauða krossinum kom fyrsta flugvél til landsins klukkan átta í morgun og í kjölfarið voru fyrstu gestir sóttkvíarhótelsins við Þórunnartún fluttir þangað og innritaðir. „Síðar í dag eru fimm vélar væntanlegar til landsins, þar af þrjár frá dökkrauðum löndum, og mun gestum í Þórunnartúni því fjölga jafnt og þétt í dag og næstu daga. Á næstunni verða svo fleiri sóttkvíarhótel opnuð, meðal annars á Austurlandi,“ segir í tilkynningunni.

Áslaug Ellen Yngvadóttir og Örvar Rafnsson hafa umsjón með sóttkvíarhótelinu en þau eru bæði menntuð á sviði átaka- og öryggisfræða og hafa undanfarið starfað í farsóttarhúsi við Rauðarárstíg.

Fyrsta flugið kom til landsins klukkan átta í morgun og voru farþegar fluttir beint á hótelið þar sem þeir voru innritaðir.Rauði krossinn

„Við erum stolt af því hve hratt og vel uppsetning sóttkvíarhótelsins gekk. Fyrsti dagurinn fer rólega af stað en við erum tilbúin fyrir komandi gesti sem mun að öllum líkindum fjölga hratt. Ég er ánægð með hótelið sem hentar þessari breyttu starfsemi vel og við erum heppin með öflugan og góðan hóp starfsfólks,“ er haft eftir Áslaugu Ellen í tilkynningu.

„Ég held við séum bara eins vel undirbúin og hægt er í þessum aðstæðum og munum gera okkar allra besta til að gera dvöl allra okkar gesta hér sem þægilegasta.“


Tengdar fréttir

Rukka tíu þúsund fyrir hverja nótt í farsóttarhúsi

Hótel í Reykjanesbæ, Reykjavík, fyrir norðan og á Austfjörðum munu taka á móti farþegum frá rauðum löndum sem þurfa að fara í fimm daga sóttkví í farsóttarhúsi samkvæmt reglugerð sem tekur gildi 1. apríl.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.