Innlent

Bóluefni fyrir 193 þúsund fyrir júnílok

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tölur gærdagsins styðja hertar aðgerðir sem þegar hafa tekið gildi innanlands og hertar aðgerðir á landamærum frá og með morgundeginum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tölur gærdagsins styðja hertar aðgerðir sem þegar hafa tekið gildi innanlands og hertar aðgerðir á landamærum frá og með morgundeginum. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerir bólusetningar, nýjar reglur á landamærum og stöðu mála í kórónuveirufaraldrinum að umræðuefni í því sem mætti kalla páskapistli sínum á Facebook. Henni telst til að í lok júní verði komið hingað til lands bóluefni fyrir 240 þúsund manns.

Katrín segir bólusetningu við Covid-19 ýmist hafna eða lokið hjá rúmlega 49 þúsund manns.

„Þetta er í samræmi við þær áætlanir sem stjórnvöld kynntu í upphafi árs og er ánægjulegt að þær hafa staðist þó að við hefðum öll kosið að afhending bóluefna gengi hraðar. Á næstu þremur mánuðum gera sömu áætlanir ráð fyrir að okkur berist bóluefni fyrir samtals rúmlega 193 þúsund einstaklinga. Gangi það eftir hefur Ísland, fyrir lok júní, fengið bóluefni fyrir samtals um 240.000 einstaklinga frá því að bólusetningar hófust í lok desember, en alls telur hópurinn sem ráðgert er að bólusetja um 280.000 manns.“

Auðvitað séu allar þessar áætlanir settar fram með öllum hefðbundnum fyrirvörum enda geti margt komið upp á í þessu viðkvæma ferli.

Skimun fyrir börn byrjar á morgun

Á morgun taka gildi breyttar og hertar reglur á landamærum.

„Þá verður sú breyting að fólk sem hingað kemur til lands frá eldrauðum löndum þarf að dvelja fimm daga á farsóttarhúsi áður en það fer í seinni skimun. Á sama tíma verður tekin upp skimun fyrir börn – sem ekki hefur tíðkast hingað til. Þá verður tekin upp ein skimun fyrir alla farþega sem eru með bólusetningarvottorð og mótefnavottorð óháð því hvaðan þeir koma,“ segir Katrín.

„Þessar breytingar koma ofan á það kerfi sem hér hefur verið við lýði frá 19. ágúst sem felur í sér tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli en raunar var bætt við þær kröfur þann 19. febrúar síðastliðinn með kröfu um neikvætt PCR-próf. Á morgun tekur líka gildi sú regla að allir sem hingað koma til lands þurfa að skrá brottfarardag.“

Í stuttu máli hafi verið beitt skilvirkum og hörðum aðgerðum á landamærum allt frá síðasta hausti.

„Við gerum okkur grein fyrir því að með þeirri breytingu sem tekur gildi á morgun erum við enn að herða verulega á aðgerðum á landamærum sem eru vissulega íþyngjandi fyrir fólk sem þarf að fara yfir landamærin. Við biðjum þó alla um að sýna því skilning að það er okkar mat eftir að hafa ráðfært okkur við sóttvarnalækni og aðra sérfræðinga að þetta séu nauðsynlegar aðgerðir til halda faraldrinum í skefjum og verja þannig daglegt líf og heilsu landsmanna á meðan bólusetningum vindur fram.“

Full þörf á aðgerðum

„Við vitum að ekki er hægt að tryggja að veiran berist ekki inn í landið en með öflugum aðgerðum á landamærunum drögum við úr líkunum á því að það gerist og aukum um leið líkurnar á því að ekki þurfi að grípa til harðari aðgerða innanlands.“

Átta greindust smitaðir innanlands í gær og var meirihluti, eða fimm, utan sóttkvíar. Katrín segir tölurnar sýna að full þörf sé á þeim aðgerðum sem stjórnvöld kynntu í síðustu viku og þeim breytingum sem taki gildi á landamærunum á morgun.

„Við höfum náð ótrúlegum árangri með því að beita umfangsmikilli skimun, smitrakningu, sóttkví og einangrun. En þegar smit eru að greinast utan sóttkvíar þarf því miður að beita harðari aðgerðum. Kórónuveiran er slægur vágestur og breska afbrigðið er enn meira smitandi en fyrri afbrigði og meiri ógn fyrir börn og ungt fólk. Það skiptir máli nú sem aldrei fyrr að við gerum öll okkar besta til að kæfa niður veiruna og stöndum saman í baráttunni,“ segir Katrín.

Baráttan hafi hingað til gengið ótrúlega vel og við Íslendingar notið hvað mests frelsis allra Evrópuþjóða í okkar daglega lífi.

„Bólusetningin mun breyta miklu til góðs og henni vindur fram eins og hér var nefnt í upphafi. En núna skiptir miklu að við tökumst á við þetta eins og við höfum gert hingað til og höfum betur í þeirri baráttu,“ segir Katrín sem vonar að landsmenn njóti páskadaganna.

Uppfært 19:38 Forsætisráðherra uppfærði Facebook-færslu sína eftir að frétt Vísis birtist. Þar sem hún talaði um skimun farþega með bólusetingarvottorð og mótefnavottorð stendur ekki lengur að en enn sem komið er séu aðeins þau sem hafa slík vottorð sem upprunnin eru innan EES-svæðisins undanskilin tvöfaldri skimun á íslenskum landamærum. Fréttinni hefur verið breytt í samræmi við það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×