Innlent

„Svo­lítið sér­stakt“ að horfa upp á auðar brekkur meðan fólk fjöl­mennir að gosinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls.
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls. Skjáskot

Forstöðumaður Hlíðarfjalls segir sárt að horfa upp á auðar skíðabrekkur á meðan fólk fjölmennir að gosstöðvunum í Geldingadölum. Sóttvarnalæknir kallar eftir því að fólk bíði með að leggja leið sína að eldgosinu.

Einhverjir hafa sett spurningamerki við að loka hafi þurft sundlaugum, líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum - en á sama tíma flykkist landsmenn óáreittir í Geldingadali. Forstöðumaður Hlíðarfjalls á Akureyri segir það hafa verið mikið reiðarslag að þurfa að skella í lás fyrir páska, stærstu skíðahelgi ársins.

„Það er svolítið sérstakt að horfa upp á auðar brekkur þegar fólk er að fara í mörgþúsundatali að skoða eldgosið. Hvort það er rétt eða rangt er ekki mitt að segja,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls.

„Manni finnst líka svolítið sérstakt að það er verið að bæta aðstöðuna þarna, bílastæðum og annað. Manni finnst ekki eins og það sé verið að halda alveg fjöldanum niðri. Þannig að þetta er svolítið sérstakt.“

Fjölmenni hefur verið við gosstöðvarnar síðustu daga.Vísir/Vilhelm

Brynjar kveðst þó skilja vel að stöðva þurfi útbreiðslu kórónuveirunnar - og þá átti hann sig á því að það sé erfitt að setja reglur í þessum efnum.

„Kannski hefði maður bara vilja sjá gossvæðið lokað á meðan við erum öll í því að reyna að koma í veg fyrir þessa veiru.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.Vísir/vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur það ekki vænlegan kost að loka gosstöðvunum fyrir almenningi.

„Það gæti skapað önnur vandamál sem yrði erfitt að eiga við, fólk færi annars staðar frá að gosinu heldur en gegnum þessa stíga. Þannig að við erum búin að ræða það hvort það sé hreinlega framkvæmanlegt að loka aðgengi að gosinu.“

Hann beinir því eftir sem áður til fólks að gæta vel að sóttvörnum við gosstöðvarnar og fara varlega.

„Meira að segja hef ég biðlað til fólks að bíða bara með að fara á gosstöðvarnar núna,“ segir Þórólfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×