Þjóðverjar voru komnir í 2-0 strax eftir sjö mínútur og unnu á endanum öruggan 3-0 sigur.
„Þetta var leiðinlegt og erfitt fyrir strákana. Við höfðum undirbúið okkur vel því við vissum að við værum að spila gegn frábæru liði og leikmönnum. Við komum með leikplan en svo fór það í vaskinn,“ sagði Arnar á blaðamannafundi eftir leikinn í Duisburg í kvöld.
„Það verra var að fá annað markið á sig, maður þekkir það sem leikmaður. Það þarf mikla karaktera til að standa í lappirnar og halda áfram. Þegar leið á fyrri hálfleikinn fundu strákarnir betri lausnir á þeirra sóknarbolta. Við fundum lausnir í hálfleik. Það býr rosalega mikið í þessu liði. Í svona stöðu var mjög mikil hætta á að tapa stórt. Ég er ánægður og stoltur hvernig menn kláruðu leikinn, sérstaklega seinni hálfleikinn.“
Manni færri á hægri kantinum
Arnar sagði að íslenska liðið hafi varist sóknum Þjóðverja upp vinstri kantinn betur í seinni hálfleik.
„Í seinni hálfleik komust við í hærri pressu og leystum það þegar þeir fjölmenntu á okkur á köntunum. Við vorum manni færri á hægri kantinum, sérstaklega þegar þeir náðu að skipta hratt á milli. En við fundum lausnina saman og þetta gekk betur,“ sagði Arnar.
„Við töpuðum boltanum of fljótt í fyrri hálfleik en strákarnir gerðu þetta mjög vel í þeim seinni.“