Innlent

Breyttu gönguleiðinni til að forðast gasmökk úr norðaustri

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Tæplega fimm hundruð manns lögðu leið sína að eldstöðvunum í gær samkvæmt talningu Ferðamálastofu.
Tæplega fimm hundruð manns lögðu leið sína að eldstöðvunum í gær samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Vísir/Vilhelm

Í ljósi þess vindur úr norðaustri feykir gasmekki yfir nýstikaða gönguleið að eldstöðvunum í dag hafa viðbragðsaðilar stikað nýja varaleið fyrir þá sem áhugasamir eru um að berja eldgosið augum.

Lögreglumaður á Suðurnesjum segir að mögulega verði svæðinu lokað undir kvöld vegna óveðurs en hann biðlar til fólks að hafa í huga að fleiri hættur steðji að en eitraðar gastegundir. Fólk verði að virða nýjar sóttvarnarreglur vegna kórónuveirunnar.

Í morgun kvartaði göngufólk yfir óþægindum vegna mengunar á gönguleiðinni að Geldingadal. Hjálmar Hallgrímsson er lögreglumaður hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.

„Við erum búin að gera breytingu á gönguleiðinni. Hún er nú tekin með fram Borgarfjalli og aðeins vestar og á öðrum stað er farið upp á Fagradalsfjall til þess að vera ekki í beinni línu við reykinn. Þetta voru svona síðustu aðgerðir hjá okkur.“

Stranglega er bannað að vera nærri gígnum.

„Við erum með fólk sem sinnir gæslu þarna. Þeir sem eru að labba upp eftir eru beðnir um að hlíða björgunarsveitarfólki og lögreglumönnum og vera á tryggu svæði. Þetta er staðan eins og hún er núna.“

Í kvöld skellur á norðanhvassviðri. Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur rýnir í veðrið.

„Það er vaxandi norðan og norðaustanátt á svæðinu og það mun þykkna upp síðdegis. Búast má við því að það fari að snjóa. Í kvöld og í nótt verður norðanhvassviðri með snjókomu og lélegu skyggni. Þá verður ekkert útivistarveður,“ sagði Helga.

Hjálmar segir að sökum þessa gæti komið til lokunar í kvöld. Fjölmenni er á svæðinu og bílastæðavandi hefur skapast. Í gær lögðu tæplega fimm þúsund manns leið sína að gosinu samkvæmt talningu Ferðamálstofu. Hjálmar segir að hópsýkingar breska afbrigðisins og nýjar sóttvarnarreglur flæki málin.

„Ég vil biðja fólk um að virða tveggja metra regluna þó það sé undir berum himni. Um að virða reglur um hópmyndun og annað. Það sækir að okkur hætta á fleiri stöðum en gasinu. Fólk verður að hafa COVID í huga líka.“

Hópur manna frá neyðarlínunni er á gosstöðvunum og mun í samvinnu við fjarskiptafyrirtækin tryggja fjarskipti á gossvæðinu.


Tengdar fréttir

Gasmengun leggur yfir stikuðu gönguleiðina

Guðmundur Eyjólfsson, vettvangsstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, ráðleggur fólki að bíða með að leggja af stað í átt að gosstöðvunum í Geldingadal vegna gasmengunar sem leggur yfir stikuðu gönguleiðina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×