Innlent

Gasmengun leggur yfir stikuðu gönguleiðina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eldgosið í Geldingadal virðist vera stöðugt að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Eldgosið í Geldingadal virðist vera stöðugt að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Eyjólfsson, vettvangsstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, ráðleggur fólki að bíða með að leggja af stað í átt að gosstöðvunum í Geldingadal vegna gasmengunar sem leggur yfir stikuðu gönguleiðina.

Guðmundur segir nóttina hafa gengið vel. Tvö minniháttar óhöpp hafi orðið á svæðinu, meðal annars hálkuslys.

Nú í morgunsárið er fólk svo byrjað að streyma á svæðið.

„Ekki í hundruðum en það eru einhverjir tugir sem eru að byrja að hefja göngu. En eins og staðan er núna þá er vindáttin yfir stikuðu leiðinni að hluta, þegar það er komið ofar, þannig að björgunarsveitarfólk er að vinna í því að fá mælingar við gosstöðvarnar. Þannig að það gæti allt eins farið að leiðinni yrði lokað en það er ekki búið að taka ákvörðun um það,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að vindáttin á svæðinu hafi snúist seint í gærkvöldi.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að nú sé vaxandi norðan- og norðaustanátt við gosstöðvarnar með þrettán til átján metrum á sekúndu og hríðarveðri undir hádegi.

Gasmengunin berst því einkum til suðurs og suðvesturs og þannig í átt að gönguleiðinni. Þetta er varhugavert að sögn Einars Bessa.

Varðandi gosið sjálft og ganginn í því segir hann hraunflæðið úr gígunum tveimur í eldgosinu mjög svipað því sem það var í gær.

Gígarnir eru nú orðnir tveir en ekki þrír eins og í upphafi eftir að minni gígarnir tveir sameinuðust í einn gíg sem er þó ennþá minni en stóri gígurinn.

Þá er skjálftavirknin svipuð og hún hefur verið síðustu daga; frá miðnætti hafa mælst 120 skjálftar á Reykjanesskaga og var sá stærsti 2,4 að stærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.