Fótbolti

Fresta leikjum kvöldsins og bíða leiðbeininga um æfingar

Sindri Sverrisson skrifar
Íþróttabann hefur verið sett á hér á landi og óvíst hvenær boltinn byrjar aftur að rúlla.
Íþróttabann hefur verið sett á hér á landi og óvíst hvenær boltinn byrjar aftur að rúlla. vísir/vilhelm

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að nú bíði íþróttasérsamböndin nánari leiðbeininga varðandi æfingar næstu þrjár vikurnar.

Heilbrigðisráðherra tilkynnti á blaðamannafundi í dag að íþróttir yrðu óheimilar næstu þrjár vikurnar, inni og úti og jafnt hjá börnum og fullorðnum, vegna nýrrar bylgju kórónuveirufaraldursins.

Klara vill þó ekki útiloka að knattspyrnulið landsins muni geta æft með einhverjum hætti þó að vissulega sé nú útlit fyrir að ekki verði spilaðir leikir næstu þrjár vikurnar. Í desember voru æfingar til að mynda leyfðar hjá liðum í efstu deildum þrátt fyrir að íþróttaæfingar væru almennt óheimilar.

„Við erum að safna saman upplýsingum og meta framhaldið. Við byrjum alla vega á að fresta leikjum kvöldsins, samkvæmt beiðni sem barst frá heilbrigðisyfirvöldum til ÍSÍ,“ segir Klara í samtali við Vísi.

Nú bíði sérsamböndin frekari frekari upplýsinga frá heilbrigðisráðuneytinu og að ÍSÍ, tengiliðurinn á milli sérsambandanna og ráðuneytisins, muni mögulega boða til fundar með fulltrúum sérsambandanna síðar í dag.

Strax spurningar frá félögunum um æfingar

„Í framhaldinu sjáum við hvort við frestum leikjum næstu þrjár vikurnar eða hvort einhver önnur spil eru á borðinu,“ segir Klara.

„Það eru strax komnar spurningar frá félögunum um hvort það megi til dæmis æfa í tíu manna hópum án þess að nota bolta, eða slíkt. Öll viljum við þó ráðast að rót vandans sem er þessi óvelkomna boðflenna sem veiran er,“ segir Klara.

Fari svo að ekki megi æfa fótbolta næstu þrjár vikurnar er óvíst að Íslandsmótið geti hafist á réttum tíma en þar á fyrsti leikur að vera 22. apríl. Á næstu vikum voru, og eru enn um sinn, áætlaðir leikir í deildabikar, bikarkeppni og meistarakeppni KSÍ.

„Þetta er eitthvað sem mótanefnd fundar um sem fyrst, þegar skýrari upplýsingar liggja fyrir,“ segir Klara.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.