Fótbolti

„Hann á virkilega stóran þátt í því sem við höfum afrekað hingað til“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfons Sampsted (nr. 2) verður ekki með U-21 árs landsliðinu á Evrópumótinu.
Alfons Sampsted (nr. 2) verður ekki með U-21 árs landsliðinu á Evrópumótinu. getty/Harry Murphy

Patrik Sigurður Gunnarsson segir að það sé skarð fyrir skildi að Alfons Sampsted verði ekki með U-21 árs landsliðinu á EM sem hefst á fimmtudaginn.

Alfons var í lykilhlutverki í U-21 árs liðinu í undankeppni EM en verður ekki með því í lokakeppninni þar sem hann var valinn í A-landsliðið sem mætir Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í fyrstu leikjum sínum í undankeppni HM 2022.

Patrik segir ekkert launungarmál að það sé missir af Alfonsi. „Algjörlega, hann er leikjahæstur í sögu U-21 árs liðsins og hefur gert virkilega vel fyrir það,“ sagði markvörðurinn á fjölmiðlafundi í Györ í Ungverjalandi í dag.

„Hann er mjög stöðugur leikmaður. Þú veist alltaf hvað þú færð frá honum og hann gerir fá mistök. Hann á virkilega stóran þátt í því sem við höfum afrekað hingað til.“

Patrik kveðst þó ánægður fyrir hönd Alfonsar, að vera kominn í A-landsliðið.

„En það er frábært fyrir hann að vera búinn að taka skrefið upp á við og vonandi nær hann að festa sig í sessi þar,“ sagði Patrik.


Tengdar fréttir

„Höfum þetta íslenska DNA og liðsheildina“

Samherjarnir hjá Silkeborg, þeir Stefán Teitur Þórðarson og Patrik Sigurður Gunnarsson, eru bjartsýnir á að Ísland komist upp úr sínum riðli á EM U-21 árs landsliða.

Burðarstólparnir í U-21 árs liðinu

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri hefur leik á EM á fimmtudaginn. Vísir fór yfir fimm burðarstólpa í liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×