Erlent

Ekki útilokað að ferðabann verði framlengt

Sylvía Hall skrifar
Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands.
Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands. Getty/David Cliff

Varnarmálaráðherra Bretlands segir ekki hægt að útiloka þann möguleika að ferðabann verði framlengt í því skyni að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Það sé því ekki skynsamlegt að bóka utanlandsferðir eins og staðan sé núna.

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins. Núgildandi ferðabann er í gildi til 17. maí næstkomandi og mega Bretar ekki ferðast á milli landa nema rík ástæða sé til, til að mynda vegna menntunar eða vinnu.

Vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar fullyrti um helgina að það væri afar ólíklegt að sumarfrí erlendis yrðu raunhæfur möguleiki í sumar. Of mikil hætta væri á því að ný afbrigði kórónuveirunnar kæmust þannig inn í landið og taldi hann ákjósanlegt að ferðabannið myndi gilda út ágúst hið minnsta.

„Það er mjög hættulegt ef við setjum bólusetningaráætlun okkar í hættu með þessum afbrigðum sem bóluefnin virka ekki jafn vel á og dreifa sér mun hraðar,“ sagði Dr. Mike Tildesley.

Starfshópur ríkisstjórnarinnar mun skila skýrslu til Boris Johnson forsætisráðherra varðandi ferðalög erlendis og gera grein fyrir því hvenær hugsanlegt sé að þau geti hafist að nýju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×