Erlent

Erindrekar í Malasíu reknir heim til Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kassar fluttir úr sendiráði Norður-Kóreu í Kúala Lúmpúr.
Kassar fluttir úr sendiráði Norður-Kóreu í Kúala Lúmpúr. AP/Vincent Thian

Erindrekar Norður-Kóreu hafa yfirgefið sendiráð ríkisins í Malasíu og setja stefnuna heim á leið eftir að ríkin tvö slitu opinberum samskiptum. Það var gert eftir að Malasía framseldi grunaðan glæpamann frá Norður-Kóreu til Bandaríkjanna.

Fáni Norður-Kóreu við sendiráðið hefur verið tekinn niður en opinber samskipti ríkjanna tveggja hafa í raun verið engin frá árinu 2017. Þá var hálfbróðir Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu myrtur með VX taugaeitri, sem er skilgreint sem gereyðingarvopn, og hafa útsendarar Norður-Kóreu verið sakaðir um morðið.

Talið er að þessir útsendarar hafi platað tvær konur til að smyrja eitri framan í Kim Jong-nam.

Sjá einnig: Meintur morðingi Kim Jong-nam látinn laus

Fyrr í þessari viku framseldi Malasía mann frá Norður-Kóreu til Bandaríkjanna en sá er grunaður um peningaþvætti. Á föstudaginn tilkynntu yfirvöld Norður-Kóreu að þau ætluðu að slíta samskiptum formlega við ríkið og Í Malasíu var brugðist við með því að vísa erindrekum Norður-Kóreu úr landi.

AP fréttaveitan hefur eftir háttsettum erindreka Norður-Kóreu í Malasíu að ríkisstjórn landsins hafi framið ófyrirgefandi glæp með því að framselja áðurnefndan mann. Þá sakaði hann ríkisstjórn Malasíu um að taka þátt í samsæri Bandaríkjanna gegn einræðisríkinu Norður-Kóreu.

Erindrekinn, sem heitir Kim Yu Song, sagði að með framsalinu hefði Malasía gereyðilagt samskipti ríkjanna. Norður-Kóreumenn hafa kallað ásakanir um fjárþvætti vera uppspuna og að Bandaríkin myndu gjalda fyrir þær.

Hér má sjá yfirlýsingu Kim.

Sá sem var framseldur heitir Mun Chol Myong og hafði búið í Malasíu í áratug áður en hann var handtekinn í maí 2019. Hann var sakaður um svik, peningaþvætti og að koma að flutning munaðarvara frá Singapúr til Norður-Kóreu, í trássi við viðskiptaþvinganir Sameinuðu þjóðanna.

Hann var framseldur eftir að Hæstiréttur Malasíu vísaði frá áfrýjun hans þar sem hann sagði ákærurnar gegn sér eiga rætur í pólitík.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.