Erlent

British Airways horfir til heimavinnunnar og íhugar að selja höfuðstöðvarnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
British Airways hefur sagt upp 10 þúsund starfsmönnum síðustu misseri.
British Airways hefur sagt upp 10 þúsund starfsmönnum síðustu misseri. epa/Robert Ghement

Forsvarsmenn British Airways íhuga nú að selja höfuðstöðvar sínar vegna þess hve margir starfsmenn eru farnir að vinna heima. Höfuðstöðvarnar voru byggðar árið 1998 og kostuðu 200 milljónir punda, eða um 35 milljarða íslenskra króna.

Fleiri stórfyrirtæki hafa ákveðið að notfæra sér þá breytingu sem virðist vera að verða á vinnuvenjum fólks og minnka við sig. Þannig hefur Lloyds-banki sagst myndu fækka skrifstofurýmum um 20 prósent á þremur árum og HSBC um 40 prósent.

Fram kom í tilkynningu frá British Airways að margir starfsmenn fyrirtækisins kynnu því vel að vinna að heiman og að í framtíðinni yrði fólki boðið upp á að vinna bæði heima og á staðnum.

Flugfélagið hefur þegar þurft að grípa til harðra aðgerða til að mæta tapinu af völdum Covid-19 og hefur meðal annars sagt upp 10 þúsund starfsmönnum. Margir þeirra unnu á skrifstofum fyrirtækisins.

Fyrirtækið hefur enn fremur greint frá því að til að mæta samdrættinum hyggist það selja verðmæt listaverk sem áður prýddu skrifstofur yfirstjórnenda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.