Fótbolti

Stjarnan snéri taflinu við og er komin í undanúrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stjarnan tryggði sér sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins.
Stjarnan tryggði sér sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins. Vísir/Daníel

Stjörnumenn eru komnir í undanúrslit Lengjubikarsins eftir 4-2 sigur gegn Fylki á Samsungvellinum í dag. Gestirnir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins, en fjögur mörk Stjörnumanna tryggðu þeim farseðilinn í undanúrslitin.

Það var nóg af mörkum þegar Stjarnan tók á móti Fylki í 8-liða úrslitum lengjubikarsins í dag.

Þórður Gunnar Hafþórsson kom gestunum yfir eftir 16 mínútna leik, áður en Arnór Borg Guðjohnsen tvöfaldaði forystuna á 32. mínútu.

Það stefndi allt í að gestirnir færu með tveggja marka forskot í hálfleikinn. Hilmar Árni Halldórsson náði að koma boltanum í netið fyrir heimamenn rétt fyrir hálfleiksflautið, eftir mikinn darraðadans í teignum. Hálfleikstölur því 1-2.

Stjörnumenn voru svo sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Á 56. mínútu jafnaði Þorsteinn Már Ragnarsson metin eftir stoðsendingu frá Emil Atlasyni.

Brynjar Gauti Guðjónsson kom heimamönnum yfir á 67. mínútu og að lokum var það Kári Pétursson sem gulltryggði sigurinn þegar um fjórar mínútur voru eftir. Kári hafði komið inn á sem varamaður tæpri mínútu áður og þetta var líklega fyrsta snertingin hans í leiknum. Ágætis innkoma þar.

Stjarnan er því eins og áður segir komin í undanúrslit Lengjubikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×