Innlent

Nemendur Fossvogsskóla hefja nám í Korpuskóla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Starfsfólk, foreldrar og nemendur hafa fengið upplýsingar um breytt skipulag.
Starfsfólk, foreldrar og nemendur hafa fengið upplýsingar um breytt skipulag. Vísir/Arnar

Fossvogsskóli verður sameinaður Korpuskóla á meðan reynt verður að vinna bug á myglu í húsnæðinu. Ríflega 350 nemendur og 50 starfsmenn munu því sækja nám og vinnu í Grafarvogi frá og með næsta þriðjudegi.

„Þetta er mikið gleðiefni því það verður hægt að vera með alla starfsemina á einum og sama staðnum, nemendur og starfsfólk verða þá saman,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar.

„Korpuskóli er í raun og veru eini valkosturinn sem býður upp á að geta verið með alla starfsemina undir einu og sama þakinu. Það var ósk skólastjórnenda og starfsfólks til að þurfa ekki að tvístra nemendahópnum,“ bætir hann við.

Hann segir að boðið verði upp á rútuferðir daglega.

„Við munum að sjálfsögðu tryggja það að allir nemendur fái akstur frá Fossvogsskóla og upp í Korpuskóla.“

Skúli segir hugmyndina hafa fengið góðar viðtökur.

„Við höfum fengið góð viðbrögð. Við höfum tilkynnt þetta með bréfi til allra foreldra og búið að funda með starfsfólki og sýna því húsnæðið. En þetta er heilmikið verkefni þannig að menn þurfa að bretta upp ermar og láta þetta ganga upp í nýju umhverfi.“

Næstu skref séu að gera úttekt á húsnæðinu og reyna að uppræta mygluna. Kennsla verður í Korpuskóla út skólaárið hið minnsta.


Tengdar fréttir

Vill óháða úttekt á öllum leik- og grunnskólum borgarinnar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins kallar eftir því að óháð úttekt verði gerð á öllum leik- og grunnskólum borgarinnar í kjölfar mygluvandans í Fossvogsskóla. Hún segir það sæta furðu að engir verkferlar séu til staðar í málum sem þessum og að viðbrögð borgarinnar séu skammarleg.

„Staðan í Foss­vogs­skóla er graf­alvar­leg“

Móðir stúlku í Fossvogsskóla er afar ósátt við að ekki eigi að bregðast við svartri skýrslu um myglu í Fossvogsskóla. Hún kennir dóttur sinni heima. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks vill helst láta rífa skólann en borgaryfirvöld vilja ekki grípa til svo róttækra aðgerða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×