Fótbolti

Cecilía til Örebro: „Handviss um að hún muni spila með einu af bestu liðum Evrópu“

Sindri Sverrisson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir í leik Fylkis og Breiðabliks síðasta sumar. Þær eru nú allar þrjár komnar í atvinnumennsku.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir í leik Fylkis og Breiðabliks síðasta sumar. Þær eru nú allar þrjár komnar í atvinnumennsku. vísir/bára

Hin 17 ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í fótbolta, er farin út í atvinnumennsku. Hún er þegar mætt til Svíþjóðar og orðin leikmaður Örebro, rétt eins og fyrrverandi fyrirliði hennar hjá Fylki.

Cecilía hefur verið orðuð við enska félagið Everton en samkvæmt frétt Fótbolta.net mun hún skrifa undir samning við Everton þegar hún hefur náð 18 ára aldri. Þangað til megi segja að hún sé „að láni“ hjá Örebro.

Í frétt á vef Örebro hrósar Jonas Nilsson, íþróttastjóri Örebro, happi yfir að hafa fengið Cecilíu en kveðst jafnframt „handviss um að hún muni spila með einu af bestu liðum Evrópu í framtíðinni“.

Cecilía gerði samning til eins árs við Örebro. Hún er tilbúin í að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið um helgina, gegn Sundsvall í sænska bikarnum.

Cecilía fylgir á eftir Berglindi Rós Ágústsdóttur sem lék með henni hjá Fylki en samdi við Örebro í vetur.

Cecilía hefur þegar spilað sinn fyrsta A-landsleik en það gerði hún í 1-0 sigri gegn Norður-Írlandi í mars í fyrra. Hún á að baki 30 leiki í efstu deild á Íslandi, fyrir Fylki, eftir að hafa byrjað meistaraflokksferil sinn með Aftureldingu/Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×