Innlent

Svæsin útbrot eftir að hafa verið sprautuð með AstraZeneca

Jakob Bjarnar skrifar
Stella fékk fyrst einkenni sem hún taldi dæmigerð eftir bólusetningu en seinna komu fram einkenni sem hún er sannfærð um að AstraZeneca hafi vakið upp.
Stella fékk fyrst einkenni sem hún taldi dæmigerð eftir bólusetningu en seinna komu fram einkenni sem hún er sannfærð um að AstraZeneca hafi vakið upp.

Stella Jórunn A. Levy sjúkraliði fékk vel upphleypt útbrot um bringu og háls með tilheyrandi verk, kláða og sviða eftir bólusetningu. Hún telur víst að bóluefnið hafi vakið vírusinn.

Stella er íslenskur sjúkraliði og býr í Bergen, Noregi. Hún starfar á hjúkrunarheimili í Bergen og er einungis á næturvöktum. Vísir fékk hana til að segja frá því hvernig allt þetta kom til og gekk fyrir sig, en starfsfólki var boðið að þiggja bóluefni á vinnustað.

Hefðbundin viðbrögð í fyrstu en svo komu útbrotin

„Enginn var neyddur og full virðing tekin fyrir ákvörðun hvers og eins. Ég ákvað að láta bólusetja mig til að eiga greiðari og óhindraðan aðgang að ferðast milli Íslands og Noregs,“ segir Stella.

Hún fékk fyrri sprautuna af tveimur af bóluefninu, AstraZenica 1. mars síðastliðinn. Bólusetning fór fram um miðjan dag á vinnustað og var framkvæmd af hjúkrunarfræðingi.

Stella ákvað að þiggja bólusetninguna meðal annars til að geta ferðast milli Íslands og Noregs á mikilla vandkvæða.

„Nóttina á eftir var ég lasin með hita, beinverki og höfuðverk.“ Stella segir það dæmigerð viðbrögð við bólusetningu en hún var svo einkennalaus með öllu um miðjan næsta dag fyrir utan eymsli í hnakka og herðum.

„Sex dögum seinna, eða snemma morguns þann 7. mars, byrjaði ég að fá útbrot sem voru staðbundin við bringu og háls. Útbrotin breiddu síðan úr sér um bringu og háls, með tilheyrandi verk, kláða, sviða og voru vel upphleypt. Einnig var ég slöpp og þreytt en hitalaus.“

Langaði til að rífa af sér húðina

Stella segir að í fyrstu hafi hún engar áhyggjur haft og hélt að þetta væri eitthvað lítilræði; „að ég hefði jafnvel rekið mig í. Ég sendi heimilislækninum mínum skilaboð tveimur dögum síðar, eða 9. mars, um þetta án þess að fá svar. Ég fór að lokum til læknis daginn eftir sem er þremur dögum eftir að ég fékk fyrstu útbrot, þann 10. mars og fékk uppáskrift fyrir kremi og töflum. En þar sem klukkan var orðin margt og ég þreytt vegna næturvaktavinnu þá fór ég ekki í apótekið fyrr en daginn eftir, fimmtudaginn 11. mars.“

Stella fór í veikindaleyfi frá vinnu, frá fimmtudegi og fram á mánudag og segir að það hafi verið rétt ákvörðun.

Fyrri myndin er tekin 11. mars þegar Stella byrjaði á lyfjum við útbrotunum. Seinni myndin er tekin í dag.

„Því ég var mjög þreytt. 

Ennþá fann ég fyrir eymslum í hnakka og herðum. Fyrir utan að farast úr kláða og langa að rífa af mér húðina, næstum ekkert mátti liggja á svæðinu. 

Og vá hvað ég skildi hlaupabólubörn vel! Þessi lyf og krem sem ég fékk eru að hjálpa mér helling, ég tek ennþá töflu og ber kremið á mig x5 á dag. Bæði töflur (800 mg) og krem (5%) heita Zovirax og eru hvorutveggja frá GSK lyfjafyrirtækinu. Þegar þetta er skrifað er ég nánast búin með uppáskrifað lyfjatímabil.“

Telur víst að bólefnið hafi vakið vírusinn

Að sögn Stellu er nefnilega um að ræða ristill í húð (herpes zoster vírussýkingu) sem er náskylt hlaupabólu (Varicella-Zoster) og bráðsmitandi eins og reyndar hlaupabóla.

Lyfið sem Stella hefur notað til að hemja útbrotin.

„Þannig að það eina rétta fyrir utan allt annað var að taka veikindaleyfi til að smita engan á vinnustað, hvorki vistmenn né vinnufélaga. Ristill virkar þannig að ef fullorðinn einstaklingur fékk hlaupabólu sem barn er sá hinn sami með vírusinn „sofandi“ í líkamanum um óákveðinn tíma. Svo ef eitthvað kemur upp á svo sem slæm veikindi þá getur vírusinn vaknað úr dvala og þá kallast það ristill,“ útskýrir Stella. Þó hún sé sjúkraliði vill hún þó mæla með því að vilji fólk kynna sér þetta betur sé vert að skoða viðurkennda miðla í því sambandi, en einhvern veginn svona virkar þetta í meginatriðum.

„Ég fékk sem sagt hlaupabólu sem barn, sem þýðir að ég get fengið ristil (Herpes Zoster) sem fullorðin, reyndar eins og margir aðrir. Ég er algjörlega sannfærð um að bóluefnið hafi kveikt á þessum vírus í líkamanum vegna þess að ég hef ekki verið að gera neitt nýtt, er heilsuhraust og ég passa vel upp á sjálfa mig. Ég hef til dæmis aldrei fengið frunsu (herpes simplex) eða neitt annað álíka.“

Krem og lyf hafa hjálpað

Stella segir að lyf og krem hafi hjálpað henni mikið í þessum raunum. Þannig að hún er bjartsýn. „Enda er ég svo sem ekki ein um að hafa fengið ristil og þetta gengur yfir.“

Eins og áður sagði var um að ræða fyrri sprautuna bóluefnisins af tveimur. Staðan í Bergen er nú sú að hætt hefur tímabundið verið við með AstraZeneca-bóluefninu eins og víðar um Evrópu. Fréttir hafa verið fluttar þar sem greint hefur verið frá tilfellum þar sem fólk hefur fengið blóðtappa eftir bólusetninguna. 

Vísir greindi frá því í hádeginu að alþjóðlegar stofnanir hafi engar sannanir fyrir orsakasamhengi og hefur ákvörðunin verið gagnrýnd í ljósi þess; að hún kunni að ala á misskilningi.

Stella segist ekki vita hvað taki við. Hún hafi spurt yfirmann sinn um það en hún hafi ekki getað svarað neinu þar um, enda ekki hennar að segja til um.


Tengdar fréttir

Svíar stöðva einnig notkun á bólu­efni AstraZene­ca

Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð hafa ákveðið að stöðva notkun á bóluefni AstraZeneca þar til að Lyfjastofnun Evrópu hefur lokið rannsókn sinni á mögulegum aukaverkunum. Fjölmörg ríki Evrópu hafa nú þegar stöðvað notkunina, þar á meðal Ísland, eftir að fréttir bárust af því að að fólk hafi verið að fá blóðtappa í kjölfar sprautunnar.

Hittast á fundi og ræða bóluefni AstraZeneca

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ætla að hittast í dag til að ræða bóluefnið frá Oxford-AstraZeneca, sem mörg Evrópuríki hafa ákveðið að hætta að nota tímabundið vegna fregna um að fólk hafi verið að fá blóðtappa í kjölfar sprautunnar.

Kynna hugsan­leg næstu skref á fimmtu­­dag

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) mun á fimmtudag ræða niðurstöður athugunar á mögulegum aukaverkunum bóluefnis AstraZeneca við Covid-19 og ræða hugsanleg næstu skref.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×