Fótbolti

Danir í sömu stöðu og Ís­lendingar: „Mjög ó­heppi­legt“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þessir tveir mætast á EM sem hefst eftir níu daga.
Þessir tveir mætast á EM sem hefst eftir níu daga. vísir/skjáskot/lars ronbog

Danir tilkynntu í gær hvaða leikmenn fara með U21 árs landsliðinu á EM og mæta þar meðal annars Íslandi sem og hvaða leikmenn munu taka þátt í undankeppninni með A-landsliðinu.

Danir eru þar af leiðandi í sömu stöðu og Íslendingar að landsliðsþjálfararnir tveir velji tvo hópa; einn sem fer með U21 árs landsliðinu í lokakeppnina og A-landsliðið spilar þrjá leiki í undankeppni HM.

Jonas Wind (leikmaður FCK), Andreas Skov Olsen (leikmaður Bologna) og Mikkel Damsgaard (leikmaður Sampdoria) voru valdir í A-landsliðið og þar af leiðandi fara þeir ekki með U21 til Ungverjaland.

„Ég hugsa aldrei um sjálfan mig, heldur hugsa ég um danskan fótbolta og leikmennina. Ég myndi aldrei standa í vegi fyrir að leikmennirnir spili með A-landsliðinu, bara út af mér,“ sagði Albert Capellas, spænskur þjálfari U21-árs landsliðsins.

„Það er áhugavert fyrir ungu leikmennina að vera í A-landsliðinu og ég er mjög glaður að Kasper velji leikmenn úr U21-árs liðinu. Við óskum A-landsliðinu hins besta.“

Kasper Hjulmand, þjálfari A-landsliðsins, segir að Damsgarard, Wind og Skov Olsen hafi allir hæfileika sem geti hjálpað A-landsliðinu í leikjunum þremur.

Hann segir hins vegar að það sé óheppilegt að lokamótið sé á sama tíma og leikirnir þrír hjá A-landsliðinu fari fram.

„Þetta er mjög óheppilegt að það er lokamót á sama tíma og það eru undankeppnisleikir hjá A-landsliðinu. Það er mjög sjaldgæft að þetta gerist.“

„Ég hefði viljað sjá þessa þrjá leikmenn með U21 árs liðinu og að við sendum okkar bestu leikmenn en mikilvægustu leikirnir eru hjá A-landsliðinu og við höldum að þeir geti hjálpað til þar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×