Fótbolti

Segir ó­lík­legt að Van Dijk og Gomez spili á EM í sumar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Dijk og Gomez í ræktinni að jafna sig á meiðslunum.
Van Dijk og Gomez í ræktinni að jafna sig á meiðslunum. Andrew Powell/Getty

Virgil van Dijk og Joe Gomez varnarmenn Liverpool, munu að öllum líkindum missa af Evrópumótinu í sumar. Þetta staðfesti Jurgen Klopp, stjóri félagsins, fyrir helgi.

Van Dijk er að jafna sig eftir aðgerð á hné. Hann varð fyrir meiðslunum í grannaslagnum gegn Everton í október þar sem hann var borinn af velli.

Gomez meiddist með Englandi í nóvember en hann meiddist á sin. Hann þurfti einnig í aðgerð og báðir hafa þeir misst af stórum hluta tímabilsins.

„Joe er ekki byrjaður að hlaupa. Virgil er byrjaður að hlaupa en þetta er erfitt,“ sagði Klopp.

Evrópumótið fer fram frá ellefta júní til ellefta júlí en því var frestað um eitt ár vegna kórónuveirunnar. Hann var spurður út í þáttöku miðvarðanna á mótinu og hann svaraði:

„Það er ekki þannig að ég vilji ekki láta þá fara, þetta er vegna meiðslanna. Við vonum að þeir verði klárir í slaginn á undirbúningstímabilinu.“

„Það er það sama um Matip. Þetta eru mjög alvarleg meiðsli og þetta snýst ekki um hvaða keppnir við erum að tala.“

„Ég er alltaf opin fyrir því þegar eitthvað kemur mér jákvætt á óvart og þeir séu allt í einu mættir á æfingu - en það hefur enginn sagt mér það,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×