Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti í vikunni styrki til 54 verkefna um allt land og nemur styrkupphæðin samtals 807 milljónum króna. Hæsta styrkinn hlaut Sveitarfélagið Hornafjörður, eða 97,4 milljónir króna til að hanna og byggja upp göngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri er hæstánægð með styrkinn.
„Já, við sóttum í sjóðinn fyrir tveimur árum og fengum þá fjármagn í að hanna stíginn. Nú liggur hönnunin fyrir þannig að nú getum við farið að hefjast handa við að leggja göngu og hjólreiðastíginn, sem tengir Svínafell við Freysnes og við flugvöllinn í Skaftafelli og svo þjónustumiðstöð Vatnakjökulsþjóðgarðs inn í Skaftafelli“,
Matthildur segir að stígurinn verði um 10 kílómetrar.
„Það er frábært að fá þennan styrk. Á svæðinu erum við að glíma við náttúruöflin. Það er sprunga á Svínadalsheiðinni, sem gæti fallið hvenær sem er og við erum svona að reyna að bjóða upp á leiðir fram hjá svæðinu þannig að fólk staldri ekki allt of lengi á sama stað, heldur geti farið leiðar sinnar annað hvort hjólandi eða gangandi með fram skriðjöklunum,“ segir Matthildur.

En hvenær ætlar Matthildur og hennar fólk að hefja framkvæmdir og hvenær mun þeim ljúka?
„Vonandi sem fyrst. Ég er nú ekki með það á hreinu hvenær þeim lýkur en þetta felur í sér einhverja brúargerð þannig að við þurfum að bjóða verkefnið út. Við erum ekki alveg komin á það stig enn þá. Það þarf að fara að vinna að útboðsgögnum þannig að hægt sé að bjóða út þessa framkvæmd," segir bæjarstjórinn.