Innlent

Sam­ræmdum prófum í ensku og stærð­fræði af­lýst

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Samræmdum prófum í ensku og stærðfræði hefur verið aflýst vegna mikilla annmarka á framkvæmd samræmds íslenskuprófs á dögunum. 
Samræmdum prófum í ensku og stærðfræði hefur verið aflýst vegna mikilla annmarka á framkvæmd samræmds íslenskuprófs á dögunum.  Vísir

Samræmdum prófum í ensku og stærðfræði, sem átti að leggja rafrænt fyrir nemendur í 9. bekk í næstu viku, hefur verið aflýst. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók þessa ákvörðun vegna hagsmuna nemenda og sjónarmiða skólasamfélagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Annmarkar voru á rafrænni fyrirlögn prófs í íslensku þann 8. mars síðastliðinn og var tekin ákvörðun um að fresta ensku- og stærðfræðiprófum um nokkra daga. Fram kemur í tilkynningunni að að vel athuguðu máli telji Menntamálastofnun ekki öruggt að rafræn fyrirlögn prófanna muni ganga snuðrulaust fyrir sig, enda hafi þjónustuaðili prófakerfisins ekki brugðist við aðstæðum með fullnægjandi hætti.

Nemendum verður hins vegar gefið tækifæri til að taka könnunarpróf í greinunum 17. mars – 30. apríl næstkomandi en verður það valkvætt og ber Menntastofnun að tryggja þá framkvæmd. Skipulag prófanna verður undirbúið í samráði við skólasamfélagið og miðast við lágmarksröskun á skólastarfi.

„Núverandi fyrirkomulag samræmdra prófa er komið á endastöð. Grundvallarbreyting á samræmdu námsmati hefur verið í undirbúningi, þar sem markmiðið er að tryggja betur hagsmuni nemenda og þarfir þeirra fyrir skýrt námsmat,“ segir Lilja Alfreðsdóttir í tilkynningunni.

Unnið hefur verið að tillögum um framtíðarsýn fyrir samræmt námsmat og skilaði vinnuhópur skýrslu um málið í fyrra. Þar lagði hópurinn meðal annars til að þróuð yrðu heildstæð matstæki fyrir skóla, í mörgum námsgreinum, sem koma skyldu í stað samræmdra könnunarprófa.


Tengdar fréttir

Hugsum sam­ræmd próf upp á nýtt

Þegar samræmd próf voru tekin upp um miðjan áttunda áratug síðustu aldar voru þau að nokkru leyti til marks um nýja hugsun í skólastarfi. Þar með lauk þriggja áratuga tilraun sem hnitaðist að mestu um landspróf. Á bak við landspróf var frómur tilgangur.

Boðar breytt fyrirkomulag samræmdra prófa á næsta ári

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra segir að fjölbreytt, stutt og hnitmiðuð rafræn próf og verkefni verði notuð til að kanna stöðu nemenda og bera saman frá og með næsta ári. Hún segir mjög mikilvægt að fram fari samræmt mat svo hver og einn nemandi viti hvar hann standi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×