Innlent

Danir hætta tíma­bundið notkun bólu­efnis AstraZene­­ca

Atli Ísleifsson skrifar
Bóluefni AstraZenica er eitt þeirra bóluefna sem hafa verið notuð í fjöldabólusetningunum hér á landi.
Bóluefni AstraZenica er eitt þeirra bóluefna sem hafa verið notuð í fjöldabólusetningunum hér á landi. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku hafa ákveðið að stöðva tímabundið notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-19 eftir tilkynningar um að grunur sé um alvarlegar aukaverkanir varðandi blóðtappa. Notkuninni verður hætt í tvær vikur til að byrja með.

Frá þessu segir á vef Danska ríkisútvarpsins. Þar er vísað í tilkynningu frá Dönsku heilbrigðisstofnuninni (d. Sundhedsstyrelsen). Tilkynningar hafi borist um „alvarleg tilfelli blóðtappa“ hjá fólki sem hafi verið bólusett gegn Covid-19 með bóluefni AstraZeneca. Ein tilkynningin snýr að dauðsfalli.

Því hafi verið beint til þeirra sem halda utan um bólusetningar í landinu að hætta notkun bóluefnis AstraZeneca tímabundið. Lyfjastofnun landsins muni nú ráðast í gerð nýs mats á efninu.

Ekki léttvæg ákvörðun

Søren Brostrøm, forstjóri Dönsku heilbrigðisstofnunarinnar, segir það ekki léttvæga ákvörðun að stöðva notkunina á umræddu efni. Danir standi nú í umfangsmestu bólusetningunum í sögu landsins og því sé þörf á öllu því bóluefni sem til boða stendur. En þar sem verið sé að bólusetja svo marga verði að bregðast við þegar tilkynningar um aukaverkanir sem þessar berist. Brostrøm segur þörf á nýju mati áður en hægt sé að hefja notkun á bóluefni AstraZeneca á ný.

Brostrøm segir að þeir sem hafi nú þegar fengið fyrri sprautuna af bóluefni AstraZeneca þurfi að bíða eftir seinni sprautunni. Búið sé að aflýsa bólusetningartíma hjá öllum þeim sem áttu að fá bóluefni AstraZeneca, en áfram verði bólusett með öðrum þeim bóluefnum sem í boði eru.

Í frétt EuroNews segir að notkun bóluefnis AstraZeneca hafi einnig verið stöðvuð í Austurríki, Lúxemborg, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.