Fótbolti

Laporta: Messi óskaði mér til hamingju með sigurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar um helgina með þeim Ilaix Moriba og Ousmane Dembele í sigrinum á Osasuna.
Lionel Messi fagnar um helgina með þeim Ilaix Moriba og Ousmane Dembele í sigrinum á Osasuna. Getty/David S. Bustamante

Joan Laporta var kosinn nýr forseti Barcelona í gær og hann segist þegar hafa fengið hamingjuóskir í skilaboðum frá Lionel Messi.

Lionel Messi var einn af þeim sem kusu nýja forseta félagsins í gær en Joan Laporta hafði þar betur á móti Victor Font og Toni Freixa.

Laporta er því kominn aftur í starfið sem hann gegndi á árunum 2003 til 2010 en síðustu árin hans á forsetastól voru félaginu mjög farsæl.

Aðeins meira en helmingur þeirra 55 þúsund meðlima Barcelona notuðu atkvæðisrétt sinn en Laporta fékk á endanum 30.184 atkvæði og hlaut því yfirburðarkosningu.

Messi kaus í fyrsta sinn en forsetakosningar fara vanalega fram yfir sumarið þegar Messi er upptekinn með argentínska landsliðinu.

„Það var virkilega gaman að sjá Messi fara og kjósa. Það er frekari sönnun þess að hann elski Barcelona. Ég er sannfærður um að hann vilji vera hér áfram. Og já hann er búinn að óska mér til hamingju með sigurinn,“ sagði Joan Laporta við fjölmiðla.

Lionel Messi var mjög ósáttur með störf Josep Maria Bartomeu, fyrrum forseta Barcelona, en Joan Laporta var forseti félagsins þegar Messi kom upp í gegnum akademíuna og fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu.

Laporta talaði mikið um Messi í kosningabaráttunni og um það að hann væri sá einu sem gæti sannfært argentínska snillinginn um að halda áfram hjá Barcelona eftir að samningur hans rennur út í sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.