Erlent

Skothríð gegn mótmælendum í Mjanmar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum í Yangon í dag.
Frá mótmælum í Yangon í dag. EPA/NYEIN CHAN NAING

Öryggissveitir Mjanmar hófu í dag skothríð á fólk sem hafði komið saman á götum borga og bæja landsins í dag til að mótmæla valdaráni hersins. Minnst átján eru sagðir liggja í valnum og tugir eru særðir.

Vitni sem Reuters fréttaveitan ræddi við segja mótmælendur ekki hafa fengið viðvaranir og einn þeirra sagði að mótmæli sem hann sótti hafi breyst í blóðbað.

Í borginni Yangon voru minnst átta skotnir þegar skothríðin hófst og sambærilega sögu er að segja frá bænum Monywa. Reuters hefur eftir mannréttindasamtökum að minnst átján séu dánir en í frétt BBC segir að minnst tíu hafi fallið.

Þar er tekið fram að fregnir af fleiri dauðsföllum hafi borist en þær hafi ekki verið staðfestar.

Hörð viðbrögð herstjórnarinnar við mótmælunum hafa verið gagnrýnd víða um heiminn. Sú gagnrýni hefur þó ekki skilað ætluðum árangri þar sem viðbrögð herstjórnarinnar hafa orðið sífellt harðari.

Mótmæli hófust í Mjanmar eftir að her landsins framdi þar valdarán í byrjun febrúar. Herinn heldur því fram að mikið svindl hafi farið fram í kosningunum í fyrra, þar sem flokkur hennar, NLD, vann stóran sigur. Herinn hefur þó ekki fært sönnur fyrir því.

Samkvæmt frétt Reuters hafa minnst 40 mótmælendur dáið frá því mótmælin hófust.

AP fréttaveitan birti í dag myndband sem sýnir lögregluþjóna handtaka blaðamann á þeirra vegum. Hann og fimm aðrir blaðamenn hafa verið ákærðir samkvæmt lögum sem herstjórnin breytti og gerði strangari í síðasta mánuði og gætu þeir mögulega verið dæmdir í allt að þriggja ára fangelsi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.