Fótbolti

Karlrembukveðja á vegg þjálfarans blasti við í sjónvarpsviðtali

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá þennan bol fyrir aftan Vegard Forren sem hneykslaði skiljanlega svo marga.
Hér má sjá þennan bol fyrir aftan Vegard Forren sem hneykslaði skiljanlega svo marga. Skjámynd/TV2

Norðmenn eru mjög hneykslaðir á forráðamönnum knattspyrnufélagsins Brann vegna skilaboða sem norska þjóðin fékk í gegnum sjónvarpið með morgunmatnum sínum.

Fjarviðtölin geta opinberað ýmislegt sem kemur vanalega ekki fyrir sjónir almennings og þannig var það í sjónvarpsviðtali við Vegard Forren, leikmann Brann í Noregi.

Varnarmaðurinn Vegard Forren var í viðtali í þættinum „God Morgen Norge“ eða „Góðan daginn Noregur“ á íslensku. Forren var þarna að tala um reynslu sína af því að vera veðmálafíkill. Það var þó ekki viðtalið sjálft sem vakti mesta athygli í Noregi.

Brann hefur fengið á sig mikla gagnrýni vegna áletrunnar á bol sem sást greinilega á bak við Vegard Forren.

Viðtalið var á Teams og tekið upp á skrifstofu markmannsþjálfarans Dan Riisnes.

Á veggnum á skrifstofu var bolur með áletrun sem fór mjög fyrir hjartað á þeim sem tóku eftir honum.

Á bolnum stóð: Kvennafótbolti, hvað er það? Það er ekki fótbolti og það eru ekki konur.

Að sjálfsögðu eru hörðustu viðbrögðin frá kvennafótboltanum í Noregi. Mette Hammersland, þjálfari Sandviken, er ein af þeim sem var mjög reið.

„Þetta er eitt það versta sem ég séð. Þetta er algjörlega vonlaust dæmi. Þarna er tvöföld neikvæðni. Annað að þetta sé ekki fótbolti en líka að þetta séu ekki konur heldur. Af hverju var þetta ekki tekið upp og af hverju fór þetta upp á vegg í fyrsta lagi,“ sagði Mette Hammersland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×