Innlent

Marg­falt fleiri skjálftar á viku en heilu ári

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skjálftavirkni á Reykjanesskaga er enn að mestu bundin við svæðið við Fagradalsfjall og Keili.
Skjálftavirkni á Reykjanesskaga er enn að mestu bundin við svæðið við Fagradalsfjall og Keili. Vísir/Vilhelm

Enn mælist mikil skjálftavirkni á Reykjanesskaga. Nú síðdegis hefur fjöldi skjálfta á svæðinu mælst svipaður og síðustu daga en skjálftarnir verið heldur minni. Frá upphafi hrinunnar í síðustu viku hafa mælst rúmlega fjórfalt fleiri skjálftar á svæðinu en allt árið 2019.

„Það er enginn skjálfti yfir þremur síðan í hádeginu, en samt sem áður yfir 2.000 skjálftar í kerfinu í dag. Virknin er áfram að mestu leyti bundin við svæðið við Fagradalsfjall og Keili,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við Vísi.

Hann segir of snemmt að segja til um hvort skjálftahrinan sem gengið hefur yfir Reykjanesskagann sé að deyja út. Í hrinum sem þessari sjáist oft lotur með minni skjálftum en stórir skjálftar geti þó enn gert vart við sig. Enn séu líkur á jarðskjálftum að svipaðri stærð og hafa skekið suðvesturhorn landsins síðustu daga.

„Ég myndi ekki lesa mikið í þessar breytingar á stærð skjálftanna seinni partinn í dag. Við erum enn með sama fjölda skjálfta og það sýnir að það er enn mikil virkni á svæðinu,“ segir Einar Bessi.

Margfalt fleiri skjálftar á viku en allt 2019

Til marks um hversu óvenju mikil jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga hefur verið að undanförnu bendir Einar Bessi á að árið 2019 hafi um 3.200 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga. Síðan núverandi hrina hófst í síðustu viku hafa þeir verið um fjórtán þúsund.

„Þetta er margfalt meiri virkni en við erum að horfa á í venjulegu árferði.“

Einar Bessi segir að litlar breytingar sé að sjá á virkninni, þegar allt er tekið með í reikninginn. Á síðustu dögum hafa skjálftar yfir fjórum og upp í fimm að stærð riðið yfir. Helsta breytingin sé líklega sú sviðsmynd sem sett var fram í gær, eftir að svæðið var skoðað á gervihnattamyndum, um mögulegt kvikuinnskot.

„Það mun ekkert breytast fyrr en það kemur ný gervitunglamynd og verður búið að vinna úr henni á fimmtudagsmorgun. Þá sjáum við hver þróunin er í aflögun,“ segir Einar Bessi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×