Innlent

Telur ekki þörf á því að fólk pakki niður í töskur

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur.
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Jarðskjálftafræðingur telur ekki þörf á því að fólk pakki niður í töskur til að geta yfirgefið heimili sín í flýti. Borið hefur á umræðu um slíkt á samfélagsmiðlum meðal íbúa á suðvesturhorninu, þar sem mikil jarðskjálftahrina hefur staðið yfir síðan á miðvikudag.

Twitter-notendur, sem margir eru uggandi vegna jarðskjálftanna, hafa síðustu daga velt því upp hvort þörf sé á því að pakka í „neyðartöskur“ og vera þannig viðbúnir því að flýja heimili sín. Notendunum er vissulega mismikil alvara með vangaveltum sínum en nokkur dæmi um slíkt má sjá hér fyrir neðan.

Þá sagði Jakob Jónsson, hafnsögumaður sem búsettur er í Vogum á Vatnsleysuströnd, frá því í samtali við Ríkisútvarpið í gær að hann og fjölskylda hans væru viðbúin því að allt fari á versta veg. Þau væru klár með „flóttatösku“.

„[…] ef upp kæmi sú staða að við þyrftum að bruna af stað með skömmum, eða engum fyrirvara,“ sagði Jakob við Ríkisútvarpið.

Engin merki um landris, gosóróa eða kvikugas

Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur var innt eftir því í hádegisfréttum Bylgjunnar hvort raunveruleg þörf væri á því að fólk pakkaði í töskur og undirbyggi sig undir að yfirgefa heimili sín í flýti.

„Ég tel ekki svo vera,“ sagði Kristín. Engin merki eða vísbendingar væru um að eldgos sé yfirvofandi.

„Það eru engin merki um landris, sjáum engan gosóróa. Við mælum ekki kvikugas sem væri til marks um kviku,“ sagði Kristín.

„Og svo auðvitað, svona sambærilegar hrinur hafa mælst áður og á síðustu öld eru þetta margar hrinur sem hafa mælst. Og það er bara orðið mjög langt síðan síðast. En þessum hrinum hefur ekki fylgt gosvirkni. Þannig að við erum ekki að sjá nein merki sem benda til þess.“


Tengdar fréttir

Snarpur skjálfti á Reykjanesi

Snarpur skjálfti fannst vel á suðvesturhorninu, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, um klukkan 13:50 í dag. Skrifstofur fréttastofu á Suðurlandsbraut í Reykjavík hristust vel en skjálftinn varði þó nokkuð skemur en stóru skjálftarnir sem urðu í nótt og á laugardagsmorgun.

Svona hljómaði stóri skjálftinn í nótt

Stór jarðskjálfti sem reið yfir klukkan hálf tvö í nótt og mældist 4,9 að stærð varði í ríflega tuttugu sekúndur, ef marka má hljóðupptöku úr Hlíðunum í Reykjavík. Upptökuna má finna neðst í fréttinni.

1.500 skjálftar í dag

Tæplega 1.500 jarðskjálftar höfðu greinst á mælum Veðurstofu Íslands frá miðnætti til hádegis í dag. Sá stærsti var 4,9 að stærð, klukkan hálf tvö í nótt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.