Enski boltinn

„Það er eitt vanda­mál og það er Harry Kane“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Harry Kane hefur verið einn albesti framherji ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár.
Harry Kane hefur verið einn albesti framherji ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár. Rui Vieira/Getty

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, hefur verið afar hrifinn af framherjanum Carlos Vinicius að udanförnu en hann berst við fyrirliðann Harry Kane um framherjastöðuna.

Brasilíumaðurinn gekk í raðir Tottenham fyrir leiktíðina en hann kemur á árs löngu láni frá Benfica í Portúgal.

Vinicius, sem talaði ekki ensku er hann mætti til landsins, hefur átt erfitt uppdráttar en hefur gert vel í Evrópudeildinni þar sem hann hefur skorað sex mörk.

Mourinho er ánægður með frammistöðu framherjans en það sé þó ekki nóg.

„Það er eitt vandamál og vandamálið er Harry Kane. Svo einfalt er það,“ sagði Mourinho.

„Að vera framherji í sama liði og Harry Kane, þá þarftu að vera sérstakur, alltaf hungraður og ánægður að fá eina mínútur, fimm mínútur eða byrjunarliðssæti.“

„Hann er að gefa okkur það sem við vildum. Hann mun fá tækifæri í deildinni því við erum að spila svo marga leiki og Kane getur ekki spilað þá alla.“

„Fyrsta tímabilið er aldrei auðvelt, sérstaklega fyrir Suður-Ameríkumann sem talar ekki tungumálið. Þetta er í fyrsta sinn sem hann fer út fyrir þægindarammann.“

„Portúgal er þægindarammi fyrir Suður-Ameríkumann. Það er veðrið, fólkið, leikstíllinn, tungumálið. Portúgal er fullkominn staður eða aðlögunarstaður fyrir þessa leikmenn,“ sagði Móri.

Tottenham spilar við Burnley á heimavelli á morgun og hefst leikurinn klukkan 14.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×