Fótbolti

Kjartan Henry skoraði er Esb­jerg tapaði Ís­lendinga­slagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kjartan Henry skoraði eina mark í 2-1 tapi í kvöld.
Kjartan Henry skoraði eina mark í 2-1 tapi í kvöld. Esbjerg

Alls komu þrír Íslendingar við sögu er Silkeborg lagði Esbjerg í stórleik dönsku B-deildarinnar í kvöld. Nú munar aðeins tveimur stigum á liðunum í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

Nicklas Helenius hefur svo sannarlega reynst happafengur fyrir Silkeborg. Hann hafði skorað tvö mörk í tveimur leikjum frá því hann gekk í raðir félagsins í janúar á þessu ári. Eftir aðeisn nítján mínútna leik í kvöld var Helenius kominn með tvennu og Silkeborg komið tveimur mörkum yfir í þessum mikilvæga leik.

Staðan var enn 2-0 í hálfleik gestunum í vil og raunar var hún þannig allt þangað til á 86. mínútu er Kjartan Henry Finnbogason minnkaði muninn. Fleiri urðu mörkin ekki og Silkeborg fagnaði gífurlega mikilvægum 2-1 sigri.

Kjartan Henry lék allan leikinn í liði Esbjerg á meðan Andri Rúnar Bjarnason sat allan tímann á varamannabekk liðsins. Þá er Ólafur Kristjánsson þjálfari liðsins. Patrekur Sigurður Gunnarsson stóð vaktina í marki Silkeborg og Stefán Teitur Þórðarson lék allan leikinn á miðju liðsins.

Esbjerg er enn í 2. sæti deildarinnar með 42 stig en Silkeborg er í 3. sæti með 40 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×