Í tilkynningu frá talsmanni ríkissaksóknara New York segir að endurskoðendafyrirtækið Mazars, sem hefur um árabil séð um skatta Trumps, hafi afhent skjölin. Um eitt og hálft ár er síðan saksóknarar stefndu fyrirtækinu og kröfðust þeirra.
Skjölin voru afhent á mánudaginn, einungis nokkrum klukkustundum eftir úrskurð Hæstaréttar. Um er að ræða 1,8 milljónir blaðsíðna af skjölum, samkvæmt frétt Washington Post.

Trump er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur ekki birt skattskýrslur opinberlega og hefur hann barist gegn því að þær verði opinberaðar. Hann hefur höfðað fjölmörg dómsmál en tapað þeim flestum.
Þær upplýsingar sem fjölmiðlar hafa komið höndum yfir hafa ekki verið Trump í hag og hefur hann jafnvel verið sakaður um skattsvik vegna þeirra.
Beiðni saksóknaranna í New York er sögð tengjast sakamálarannsókn gegn Trump sem beinist meðal annars að greiðslum sem Michael Cohen, fyrrverandi einkalögmaður Trumps, greiddi til kvenna í aðdraganda forsetakosninganna 2016 í skiptum fyrir þögn þeirra um kynferðisleg samskipti þeirra við Trump.
Sjá einnig: Hæstiréttur heimilar afhendingu skattskýrslna Trumps
Meðal þess sem saksóknarar leita í gögnunum eru vísbendingar um að Trump hafi sagt skattinum að hann væri blankur, á sama tíma og hann segði lánveitendum að hann væri ríkur. Samkvæmt greiningu AP fréttaveitunnar munu þeir einnig skoða hvort Trump hafi framið bankasvik.
Einnig munu þeir skoða þær aðferðir sem Trump beitti til að draga úr skattgreiðslum sínum.